Kosning hófst almennt kl. 9

Kosið er í Ráðhúsinu í Reykjavík og á fleiri stöðum.
Kosið er í Ráðhúsinu í Reykjavík og á fleiri stöðum.

Kosning til stjórnlagaþings hófst á flestum kjörstöðum kl. 9 í dag. 522 frambjóðendur eru í kjöri, en kjósendur mega kjósa allt að 25. Á kjörskrá eru 232.374, en þar af eru 7.494 nýir kjósendur sem ekki höfðu rétt til að kjósa til Alþingis vorið 2009.

Kjörstaðir eru almennt opnir frá kl. 9 til kl. 22 í kvöld, en þó hafa einstaka kjörstjórnir ákveðið, eins og þeim er heimilt, að byrja síðar og/eða hætta fyrr. Sveitarfélög auglýsa kjörstaði í kosningum til stjórnlagaþings og mörg þeirra birta einnig kjörfundarupplýsingar á vefjum sínum. Upplýsingar um kjörstaði í Reykjavík birtist í dagblöðunum í dag.

Á kjörskrá eru 232.374 kjósendur og er fjöldi karla og kvenna svo til jafn. Konur eru 116.559 en karlar 115.815. Í endanlegri tölu kjósenda á kjörskrá, sem birt verður í skýrslu um kosninguna, verður tekið tillit til tölu látinna og þeirra sem fá nýtt ríkisfang eftir að kjörskrárstofnar voru unnir, svo og breytinga sem verða á kjörskrá vegna leiðréttinga. Við alþingiskosningarnar 25. apríl 2009 voru 227.843 kjósendur á kjörskrá og nemur fjölgunin síðan þá 4.531 eða 2,0%.

Kjósendur með lögheimili erlendis eru 12.325 eða 5,3% kjósendatölunnar og hefur þeim fjölgað um 2.401 frá síðustu alþingiskosningum eða um 24,2%. Kjósendum með lögheimili hér á landi fjölgar um 2.130 eða 1,0%. Þeir sem vegna aldurs fá nú að kjósa samkvæmt alþingiskosningalögum en fengu ekki að kjósa til Alþingis 2009 eru 7.494 eða 3,2% af kjósendatölunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert