Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði um helgina tæplega fjögur hundruð ökumenn og mældi fyrir ölvunarakstri. Á föstudagskvöldið stöðvaði lögreglan 125 ökumenn á leið eftir Hringbraut. Allir reyndust allsgáðir. Á laugardag og sunnudag voru 266 ökumenn stöðvaðir. Þrír þeirra mældust yfir mörkum. Þeir hafa nú verið kærðir. Athygli vakti að um 20% þeirra ökumanna sem voru stöðvaðir á föstudeginum voru án ökuskírteinis, en refsingin við því er fimm þúsund króna sekt.
Að sögn Guðbrands Sigurðssonar, aðalvarðstjóra umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, mun lögreglan koma til með að fylgjast einkar náið með ölvunarakstri á næstu vikum, eins og tíðkast um þetta leyti. Bæði mun lögreglan stöðva alla umferð, líkt og gert var á Hringbrautinni og mæla einn og einn ökumann. Þá gildir einu hvort það sé í miðri viku eða um helgi.