43% á móti almennri skuldaniðurfellingu

Skoðanir eru skiptar á almennri skuldaniðurfellingu ef hún veldur skerðingu …
Skoðanir eru skiptar á almennri skuldaniðurfellingu ef hún veldur skerðingu lífeyris. Mbl.is/Kristinn

Um 43% Íslendinga eru andvígir almennri skuldaniðurfellingu, en þriðjungur er  fylgjandi því að lífeyrissjóðir taki þátt í niðurfellingu húsnæðisskulda þó það leiði til þess að lífeyrisgreiðslur kunni að skerðast. Þetta er niðurstaða úr könnun Miðlunar ehf. um lífeyrismál sem birt er á vefsíðu Landssamtaka lífeyrissjóða.

Um er að ræða netkönnun um lífeyrismál sem gerð var 20. október til 16. nóvember. Ein af spurningunum var svohljóðandi: „Hversu fylgjandi eða andvígur ert þú því að lífeyrissjóðir taki þátt í skuldaniðurfellingu húsnæðislána, þó það þýði að lífeyrisgreiðslur myndu mögulega skerðast?“ 5,6% sögðust vera því mjög fylgjandi, 23,6% frekar fylgjandi, 25,1% sögðust frekar andvígir þessu og 17,8% mjög andvígir. 28% tóku ekki afstöðu.

Fram kemur að karlar eru hlynntari þessum hugmyndum en konur og fólk á höfuðborgarsvæðinu er ívið hlynntara hugmyndunum en landsbyggðarbúar. Stuðningurinn er mestur hjá fólki með fjölskyldutekjur á bilinu 550-799 þúsund kr. á mánuði en minnstu hjá þeim sem hafa undir 250 þús. krónum í fjölskyldutekjur.

Upphaflegt úrtak  var valið af handahófi úr þjóðskrá, fólk á aldrinum 18-75 ára, alls 1.600 manns. Þar af svöruðu 863 eða 54%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert