31.400 undir lágtekjumörkum

31.400 Íslendingar, eða 10,2% landsmanna, voru undir lágtekjumörkum á síðasta ári en lágtekjumörk einstaklinga voru þá skilgreind 160.800 krónur á mánuði fyrir einstakling og 337.700 krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu.

Þetta kemur fram í áfangaskýrslu starfshóps, sem starfar á vegum Reykjavíkurborgar og fjallar um fátækt í Reykjavík. Vísað er til upplýsinga úr Hagtíðindum Hagstofunnar.

Starfshópurinn segir, að ekki séu fáanlegar samskonar tölulegar upplýsingar hjá Hagstofunni um fjölda Reykvíkinga undir lágtekjumörkum. Reykvíkingar séu 38% af landsmönnum öllum. Hins vegar sé vert að hafa í huga að Reykjavík er höfuðborg landsins, sem mögulega geri  það að verkum að fólk flyst frekar til borgarinnar til að njóta þjónustu sem hún hefur upp á að bjóða. Því bendi margt til þess að hlutfallið  sé hærra í Reykjavík en sem svarar til hlutfalls af íbúafjölda landsins.

Í skýrslunni eru tekin saman verkefni sem starfshópurinn telur mikilvægt að Velferðarráð hugi. Ætlar hópurinn að skoða enn frekar neðangreinda þætti og koma eftir atvikum með tillögur að framkvæmd:

  • Finna þarf leiðir til þess að lyfta notendum fjárhagsaðstoðar sveitarfélagsins upp fyrir lágtekjumark.
  • Leita leiða til að tryggja að foreldrar sem rétt eiga á sérstakri fjárhagsaðstoð vegna barna samkvæmt grein 16a í reglum um fjárhagsaðstoð, geti nýtt þann rétt. Tryggja þarf að börn efnaminni foreldra nýti frístundakort ÍTR.
  • Finna leiðir til að koma fjárhagslega til móts við þann hóp ungmenna sem eru að flosna úr framhaldsskóla vegna efnahagsástandsins.
  • Tryggja þarf að einstaklingar og fjölskyldur sem búa við fjárhagserfiðleika fái viðunandi heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega þarf að huga að tannlækningum og talþjálfun fyrir börn og lyfjakostnaði fyrir öryrkja.
  • Fram fari endurskoðun á reglum um fjárhagsaðstoð til Reykvíkinga þar sem tryggt verði betra samspil allra bóta til að aðstoðin nýtist sem best m.a. með einföldun og gegnsæi regluverksins.
  • Skoðaðar verði hugmyndir um lágmarksframfærsluviðmið og barnatryggingar sem hafa verið til umræðu og eru nú m.a. til athugunar hjá Félags- og tryggingamálaráðuneytinu.
  • Taka upp viðræður við ríkið um verðtryggingu húsaleigubóta.
  • Fá fram sjónarmið almennings um fátækt, helstu birtingarmyndir og tillögur til úrbóta.
  • Leggja áherslu á í öllu samstarfi milli stofnana að skimað verði sérstaklega eftir börnum sem búa við fátækt.
  • Auka samráð og samvinnu ríkis, Reykjavíkurborgar, félagasamtaka og háskólasamfélagsins til að ná betur utan um verkefni velferðarþjónustunnar.
  • Finna og leggja aukna áherslu á leiðir sem auka félagsauð og virkni
  • Fylgja eftir að unnin verði greining á stöðu fátækra barna.
  • Huga að valkostum í húsnæðismálum borgarbúa almennt í ljósi efnahagshrunsins og skoða möguleika og þörf á fleiri valkostum á húsnæðismarkaði s.s. öruggum almennum leigumarkaði og kaupleiguíbúðir.
Áfangaskýrslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert