Meginatriði samkomulags að nást

Stjórnarráðið
Stjórnarráðið

Drög að viljayfirlýsingu og samkomulagi liggja fyrir í meginatriðum, eftir fund fjögurra ráðherra með fulltrúum lífeyrissjóðanna, sem lauk nú fyrir stuttu. Enn á eftir að ná samkomulagi við Íbúðalánasjóð og fulltrúa bankanna.  

Stíft hefur verið fundað í Stjórnarráðshúsinu í dag, en fundur ráðherranna og fulltrúa lífeyrissjóða hófst klukkan þrjú. Þeim fundi er nú lokið, en áfram er fundað með hagsmunaaðilum. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði við fréttamenn eftir fund með lífeyrissjóðunum, að vonandi tækist að skrifa undir viljayfirlýsingu um aðgerðarnar á morgun. Sagði hún að almennar aðgerðir myndu ná til allt að 40 þúsund manns.

Arnar Sigurmundsson, formaður Landsambands lífeyrissjóða, segir að drög að viljayfirlýsingu liggi fyrir í meginatriðum. Meira verði vitað eftir að fundað hefur verið með bankamönnum.

„Síðan tekur það við að lesa vel yfir textann og bera saman, það gerum bæði við og sérfræðingar okkar,“ segir Arnar. Hann segir samkomulag milli hlutaðeigandi um það að ræða ekki efni þess fyrr en formlega verður gerð grein fyrir því.

„Ég býst við því, ef ekkert óvænt kemur upp, að menn stefni að því að ljúka þessu einhvern tímann á morgun,“ segir Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert