Hinir ráðdeildarsömu tapa

„Hin fjölskyldan fær enga leiðréttingu, skuldar 20 milljónir og er búin að tapa þeim 10 milljónum sem hún lagði fram í upphafi þannig að hún er búin að borga fyrir leiðréttingu hins aðilans í þessu dæmi og gott betur,“ segir í dæmi Hagsmunasamtaka heimilanna um óréttlæti aðgerða fyrir skuldara.

Dæmið sem vitnað er til er sem hér segir:  

„Þetta er allt á sömu bókina lært, það er samið við "hagsmunaaðila" en hvergi sést í skuldarana sem eru nú beinir hagsmunaaðilar að þessu dæmi og Hagsmunasamtökum heimilanna er haldið utan við málið með pólitík og það ljótri. Talað er um að þetta hljómi upp á um 100 milljarða en bara gert ráð fyrir að fara niður í 110 prósent, þannig að skuldarar standa eftir með 10 % yfirveðsetningu.“

Önnur fjölskyldan græðir en hin tapar

Spurt er hver borgi brúsann.

„Hver borgar þetta fyrir bankana því ekki gera þeir það sjálfir? Tökum dæmi: Tvær fjölskyldur keyptu sér sitt hvora íbúðina í sama húsinu 2007 á 25 milljónir. Önnur fjölskyldan tók 100 % lán og skuldar í dag um 33,2 milljónir. Hin fjölskyldan átti 10 milljónir og tók því 15 milljónir að láni og skuldar í dag um 20 milljónir. Gefum okkur að íbúðirnar kosti í dag um 20 milljónir og lánin hafi hækkað um c.a. 33 % samkvæmt verðtryggingu. Samkvæmt leið ríkisstjórnarinnar þá fær fyrri fjölskyldan sem tók 100 % lánið afskrifað niður í 110 % og skuldar því 22 milljónir og hefur engu tapað þó hún skuldi 2 milljónir umfram verðmæti.

Hin fjölskyldan fær enga leiðréttingu, skuldar 20 milljónir og er búin að tapa þeim 10 milljónum sem hún lagði fram í upphafi þannig að hún er búin að borga fyrir leiðréttingu hins aðilans í þessu dæmi og gott betur. Þetta kostar ekkert fyrir bankana þegar verið er að færa lán í 110 % veðsetningu, veðsetningin var ónýt áður og ef þeim tekst að fá fólk til að borga af 110 % veðsetningu þá eru þeir að græða en ekki tapa því eðlilegt er að skuldari skuldi ekki meira en nemur verðmæti eignarinnar ef hann lagði eitthvað fram sjálfur í upphafi, ef bankinn lánaði honum 100 % í upphafi þá verður bankinn sjálfur að taka tapið af því. Það er enginn akkur í því fyrir neinn að skulda umfram verðmæti húsnæðissins síns og sinnar fjölskyldu.“

mbl.is