Samfylkingin biðst afsökunar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á flokkstjórnarfundinum í dag
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á flokkstjórnarfundinum í dag Eggert Jóhannesson

Samfylkingin biður þjóðina afsökunar á mistökum sínum í aðdraganda hrunsins. Þau mistök fólust m.a. í því að taka ekki nægjanlegt mark á viðvörunarorðum um veika stöðu bankakerfisins og að setja ekki ríkisstjórnarsamstarfinu nógu ströng skilyrði um nauðsynlegar aðgerðir.  Þetta segir í ályktun sem samþykkt var á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar nú síðdegis.

Það er einarður ásetningur Samfylkingarinnar að læra af því sem aflaga hefur farið á undanförnum árum; í stjórnmálum, stjórnsýslu og umgjörð fjármálakerfisins og sækja fram reynslunni ríkari, samkvæmt ályktuninni. Samfylkingin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til ná fram nauðsynlegum breytingum á viðhorfum og vinnubrögðum í stjórnmálum og stjórnsýslu og endurreisa þannig traust í samfélaginu.  Þá heitir Samfylkingin því einnig að vinna ötullega að því að endurskoða eigin starfshætti.  

„Mikið hefur verið gert til að greina og rekja atburðarrás áranna 2007 og 2008 og hlut einstaklinga sem að málum komu í aðdraganda hrunsins. Þegar til framtíðar er litið skiptir meira máli að skilja hvað brást í skipulagi stofnana, regluverki og lögum samfélagsins, en ekki síður starfsemi stjórnmálaflokka. Þar hefur Samfylkingin tekið frumkvæði og axlað ábyrgð með úrbótum. Tillögur umbótanefndarinnar sem lagðar eru fram til umræðu meðal flokksmanna eru tímamót í þeirri vinnu.“ Samkvæmt ályktuninni fólst ábyrgð Samfylkingarinnar meðal annars í: 

  • Að taka ekki nægilegt mark á viðvörunarorðum um veika stöðu bankakerfisins.
  • Að vinna ekki nægilega markvisst að því að greina stöðu bankanna og undirbúa aðgerðir til draga úr óhjákvæmilegu tjóni vegna veikrar stöðu þeirra.
  • Að tryggja ekki gegnum skýrt skipulag flokksins að nægilegt upplýsingastreymi og samráð sé á hverjum tíma meðal ráðherra flokksins, þingflokks, flokksstofnana og almennra flokksmanna.
  • Að setja ekki ríkisstjórnarsamstarfinu nægilega ströng skilyrði um nauðsynlegar aðgerðir.
  • Að láta hjá líða að setja reglur um takmarkanir á fjárframlögum og styrkjum til frambjóðenda í fjölda opinna prófkjara, þvert á langvinna baráttu flokksins fyrir skýrum reglum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda.

„Samfylkingin viðurkennir ábyrgð sína í þessum efnum. Biður hún íslensku þjóðina afsökunar á þeim mistökum sem hún ber ábyrgð á í aðdraganda hrunsins. Jafnframt heitir Samfylkingin því að hlusta með opnum hug á gagnrýni og takast á við umbætur á skipulagi, starfsháttum og stefnu flokksins til að koma í veg fyrir að sambærileg mistök endurtaki sig,“ segir í ályktuninni. 

Frá fundi flokkstjórnar Samfylkingarinnar í dag
Frá fundi flokkstjórnar Samfylkingarinnar í dag mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is