Sjálfstæðisflokkurinn braut reglur um markpóst

Markpósturinn var sendur stuttu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.
Markpósturinn var sendur stuttu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.

Persónuvernd hefur kveðið upp úrskurð um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi brotið gegn reglum um markpóst með því að senda hann til einstaklinga sem voru með bannmerki í Þjóðskrá.

Persónuvernd barst kæra frá konu sem hafði fengið póst frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í vor. Í kærunni sagði:

„Í dag barst mér markpóstur undirritaður af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Póstur þessi var merktur mér nafni og heimilisfangi og póstsendur mér. Ég á ekki í neinum persónulegum samskiptum við téða Hönnu og er ekki í neinum félagsskap sem tengir okkur saman. Ég geri ráð fyrir að nafn mitt og heimilisfang séu fengin úr Þjóðskrá. Í Þjóðskrá er ég á lista yfir þá sem frábiðja sér markpóst sbr. 28. gr. laga nr. 77/2000.

Ég tel því að samkvæmt lögum nr. 77/2000 hafi téðri Hönnu verið óheimilt að nota upplýsingar um mig, fengnar úr þjóðskrá til þess að senda mér umræddan markpóst.“

Í svari frá Sjálfstæðisflokknum kom fram að í samræmi við lög og innri reglur Sjálfstæðisflokksins hafi útsendingarlisti vegna umrædds markpósts verið án allra einstaklinga sem bannmerktir eru í Þjóðskrá. Sá listi var sendur til þriðja aðila sem tekið hafði að sér að annast prentun og dreifingu markpóstsins. „Við vinnslu verkefnisins virðist sem misgáningur hafi valdið því að viðkomandi prentsmiðja studdist við eigin útsendingarlista, unninn úr Þjóðskrá, sem tók til allra kvenna í Reykjavík á aldrinum 20-67 ára og þar af leiðandi einnig til þeirra einstaklinga sem bannmerktir eru í Þjóðskrá. Um mannleg mistök var því að ræða og staðfestist hér með að það var ekki ætlun Sjálfstæðisflokksins í þessu tilfelli frekar en öðrum að senda markpóst til einstaklinga sem bannmerktir eru í Þjóðskrá.

Þrátt fyrir að umrædd mistök hafi átt sér stað hjá þriðja aðila og Sjálfstæðisflokknum ekki kunnugt um þau fyrr en dreifingu markpóstsins var lokið, tekur flokkurinn að sjálfsögðu fulla ábyrgð á þeim. Flokkurinn biður því hlutaðeigandi, í þessu tilviki [B], velvirðingar á þessum mistökum og því ónæði sem umræddur markpóstur kann að hafa valdið henni. Um leið og þakkað er fyrir ábendinguna er vert að nefna að Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar gripið til ráðstafana í því skyni að fyrirbyggja mistök af þessu tagi í framtíðinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert