Icesave á endastöð

Ögmundur Jónasson, dóms- og samgönguráðherra.
Ögmundur Jónasson, dóms- og samgönguráðherra. mbl.is/Ómar

Ögmundur Jónasson, dóms- og samgönguráðherra, segir að margt bendi til þess að Íslendingar séu komnir á endastöð í Icesave-málinu. Alþingi eigi þó eftir að fara í saumana á samningnum, sem nú liggur fyrir. Þá telur hann að viðbrögð forseta Íslands hljóti að ráðast af því hvaða afstaða verði tekin til samningsins á þingi og í samfélaginu almennt. 

Þetta kemur fram á bloggsíðu Ögmundar, þar sem hann fjallar um Icesave-samingana. Þar segir hann m.a.:

„Forsetinn skýrði ákvörðun sína um að skjóta málinu til þjóðarinnar í ljósi lýðræðislegrar andstöðu við málið - innan þings og utan, ekki með skírskotun til málsins sjálfs. Þetta er lykilatriði.

Með hliðsjón af þessu leyfi ég mér að efast stórlega um að forsetinn nýti málskotsréttinn að nýju. Það á þó eftir að koma í ljós hvernig samfélagið bregst við að þessu sinni. En fari sem nú horfir, verðir málið leitt endanlega til lykta á Alþingi.“

Ögmundur segir að það hafi ekki verið ógæfa Alþingis að samþykkja frá sér samninginn í desemberlok í fyrra.  Öllum hafi mátt vera ljóst að lengra yrði ekki komist á þingi.

„Það var þrautreynt. Alþingi átti ekki annarra kosta völ. Þingið lá ofan í skotgröfum. Einu hefði gilt hvort samningurinn hefði verið samþykktur eða felldur á þessu stigi. Hefði samningurinn verið felldur hefði málið hjakkað áfram í sama farinu. Stjórnin hefði farið frá og málið nú hugsanlega  komið í hendur  stjórnarandstöðu sem að hluta til hafði áður staðið að mun veri lausn! Nokkuð sem sjaldan er í hávegum haft - og alls ekki í fréttaskýringunum sem hellast yfir okkur án afláts. Sannast sagna held ég að þetta hefði ekki verið til góðs,“ skrifar Ögmundur.

Þá segir hann að að hafi skipt öllu máli og orðið Íslendingum til gæfu að málinu hafi verið vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hafi forseti Íslands gert og hann eigi lof skilið fyrir framgöngu sína.

„En þetta gerði forsetinn ekki fyrr en um það bil þriðjungur kosningabærra manna í landinu höfðu undirritað áskorun þess efnis. Hann tók og ákvörðun sína með skírskotun til þess að innan þingsins - í stjórnarmeirihlutanum, væru einstaklingar sem réru að því öllum árum að koma málinu á annað og æðra stig - til fólksins - þaðan sem allt vald á uppruna sinn - svo vísað sé til orða Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingflokksformanns VG, sem hart gekk fram í þessu. Það gerðu einnig fleiri stjórnarþinggmenn. Var haft á orði að nokkur þúsund manns hefðu bæst á undirskrifatalista Indefence eftir að Ásmundur Einar Daðason hafði flutt sína hvatningarræðu í beinni útsendingu við atkvæðagreiðsluna 30. desember,“ skrifar Ögmundur.

mbl.is