Vilja seinka klukkunni

Brynjar Gauti

Fjórtán þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að ríkisstjórninni verði falið að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund. Valin verði hentug tímasetning til þess að ráðast í aðgerðina, innan árs frá samþykkt tillögunnar, að lokinni kynningu í þjóðfélaginu.


Þeir sem standa að tillögunni eru Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall, Álfheiður Ingadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ólína Þorvarðardóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Árni Þór Sigurðsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, Árni Johnsen og Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Miðað við gang sólar er klukkan á Íslandi rangt skráð. Í stað þess að sól sé hæst á lofti um hádegisbil er sól á Íslandi hæst á lofti í Reykjavík að meðaltali kl. 13.28 og á Egilsstöðum hálftíma fyrr. Verði klukkunni varanlega seinkað um eina klukkustund, eins og tillaga þessi gerir ráð fyrir, yrði sól hæst á lofti í Reykjavík að jafnaði klukkan hálf eitt og á Egilsstöðum í kringum tólf.


„Vegna þessarar tímaskekkju á Íslandi kannast líklega flestir Íslendingar við þá nöpru tilfinningu að þurfa að vakna til vinnu eða skóla í svartamyrkri stóran hluta ársins. Í raun er enn nótt á Íslandi, miðað við gang sólar, þegar Íslendingar fara til vinnu klukkan átta eða hálf níu miðað við núverandi klukku. Verði klukkunni seinkað um eina klukkustund verða morgnarnir hins vegar bjartir langt fram í nóvember og byrja aftur að verða bjartir síðari hluta janúar. Sólin rís oftar á undan fólkinu með tilheyrandi varma og birtu. Myrkum morgnum fækkar til muna,“ segir í greinargerð með tillögunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina