Skilyrði að Íslendingar hætti hvalveiðum

Hvalur 9. leggur úr höfn til veiða í fyrra.
Hvalur 9. leggur úr höfn til veiða í fyrra. Kristinn Ingvarsson

Hollenska þingið ályktaði í gær gegn hvalveiðum Íslendinga. Lýsti þingið yfir þeirri afstöðu sinni að Íslendingum verði ekki heimilt að ganga í Evrópusambandið nema gegn því skilyrði að þeir beygi sig samstundis undir reglur Alþjóðahvalveiðiráðsins og samning um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra (CITES) og hætti hvalveiðum.

Í ályktuninni segir að í ljósi þess að samningaviðræður standi nú yfir við Ísland um að ganga í Evrópusambandið beri að líta til þess að Íslendingar „stundi veiðar á alþjóðlega vernduðum hvölum í útrýmingarhættu og eigi í verslun við önnur lönd um hvalaafurðir."

Íslendingar fylgi ekki þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið innan Alþjóðahvalveiðiráðsins og CITES um bann við veiðar og sölu á hval og það er óásættanlegt að sögn hollenska þingsins, sem „styður eindregið bannið við þessa grimmdarlegu ástundun sem hefur að engu alþjóðlegar samþykktir," segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert