SUS svekkt út í þingmenn Sjálfstæðisflokksins

Ungir sjálfstæðismenn eru „svekktir út í þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir að sitja hjá við afgreiðslu fjárlaga í [gær], jafnvel þó það sé hefð fyrir því að stjórnarandstaðan sitji hjá þegar kosið er um fjárlög," að því er segir á heimasíðu SUS eftir atkvæðagreiðsluna á Alþingi í gær.

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við lokaafgreiðslu fjárlaga á Alþingi. Hefð er fyrir því við lokaafgreiðslu fjárlaga að stjórnarandstæðingar sitji hjá fremur en að sýna andstöðu sína með því að greiða atkvæði á móti.

Af umræðum á vefsíðu SUS má dæma að ungir sjálfstæðismenn hefðu heldur viljað sjá þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka harðari afstöðu gegn fjárlögunum með því að brjóta hefðina og greiða atkvæði gegn þeim. SUS hefur lýst sig mótfallið fjárlögunum og lagði í síðustu viku fram eigin tillögur um sparnað í rekstri ríkisins. Þær fólust meðal annars í því að afnema öll framlög til nýsköpunar, atvinnusköpunar og iðnaðarrannsókna og leggja niður stofnanir eins og Rúv, Skógrækt ríkisins, embætti Ríkissáttasemjara, Samkeppniseftirlitið og öll listasöfn, leikhús og menningarstofnanir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert