Einlægar og hjartahlýjar kveðjur

Gerður G. Bjarklind las jólakveðjur í Útvarpshúsinu þegar ljósmyndari mbl.is …
Gerður G. Bjarklind las jólakveðjur í Útvarpshúsinu þegar ljósmyndari mbl.is leit þar við. mbl.is/Eggert

Frá því klukkan átta í morgun hafa fjórir útvarpsþulir skipst á að lesa jólakveðjur til landsmanna á Rás 1. Að sögn Sigvalda Júlíussonar, þuls, hefur lesturinn aldrei hafist jafn snemma, en 78 ár eru nú liðin frá því Ríkisútvarpið hóf að lesa jólakveðjur í útvarpi.

Sigvaldi segir í samtali við mbl.is að kveðjurnar í ár séu álíka margar og í fyrra. Þá hófst lesturinn kl. 9 og lauk honum ekki fyrr en um hálf tvö um nóttina. Sigvaldi vonast til að þulirnir nái að ljúka við lesa allar jólakveðjurnar á miðnætti.

Fjórir þulir skipta á milli sín lestrinum. Þeir eru, auk Sigvalda, Anna Sigríður Einarsdóttir, Gerður G. Bjarklind og Guðmundur F. Benediktsson. Kveðjurnar eru allar lesnar upp í beinni útsendingu og skiptast þulirnir á að lesa í um það bil 10 mínútur hvert. Þrír tæknimenn skipta jafnframt með sér verkum yfir daginn.

„Þetta hefur gengið vel,“ segir Sigvaldi og bætir við að inn á milli leiki menn jólatónlist. Annað sé ekki á dagskrá Rásar 1, fyrir utan fréttir og tilkynningar. Reynt sé að gleðja hlustendur og þjóna þeim um leið.

„Við höldum okkur gangandi með því að borða vel. Borða mikið af konfekti og heimabakkelsi,“ segir Sigvaldi. 

Hann bendir á að fyrstu jólakveðjurnar hafi verið lesnar upp í útvarpi árið 1932. Til að byrja hafi kveðjurnar verið lesnar upp á aðfangadag, síðan á jóladag en undanfarna áratugi hafi kveðjurnar verið lesnar upp á Þorláksmessu.

Hann segist verða var við mikil viðbrögð og þakklæti. Þá hrósar hann þeim sem senda jólakveðjurnar fyrir það hversu einlægar og hjartahlýjar þær séu. „Það er ákveðin helgi yfir þeim, þó að þetta sé á léttum nótum. Það er enginn að gera lítið úr þessu eða snúa út úr. Það er gaman að því.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina