Framsókn eðlilegur kostur

Sigmundur Ernir Rúnarsson
Sigmundur Ernir Rúnarsson mbl.is/Ómar

„Það hafa að mínu viti ekki farið fram neinar formlegar eða óformlegar viðræður á milli Framsóknar og Samfylkingar,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar. Hann kveðst skilja orðróminn. „Þetta væri að mínu viti eðlilegasti kosturinn í stöðunni, að stækka ríkisstjórnina í þessa átt.“ 

„Þetta hafa verið eðlilegar getgátur út af ástandinu. Það er ljóst að uppákoma þremenninganna hlýtur að hafa ákveðin eftirmál.

Það er langt í frá sjálfgefið að maður eins og Ásmundur Einar Daðason verði áfram í fjárlaganefnd, að Lilja Mósesdóttir verði formaður viðskiptanefndar og Atli Gíslason formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Það að styðja ekki fjárlagafrumvarpið er náttúrulega ígildi þess að styðja ekki stjórnina. Þannig að það er augljóst að það þarf að styrkja stoðirnar.

Framsóknarflokkurinn er kannski sá flokkur á þingi, fyrir utan Samfylkingu og Vinstri græna, sem hefur gengið í gegnum mestu endurnýjunina eftir hrunið. Þess vegna er eðlilegt að menn horfi þangað. En ég get fullyrt að það hafa ekki farið fram neinar viðræður, hvorki formlegar eða óformlegar, um samstarf Samfylkingar og Framsóknar. Þá á ég við að fulltrúar Samfylkingar hafi leitað til þeirra. En vissulega ræða menn ýmislegt í sínum pólitísku skúmaskotum, þegar að svona áföll ríða yfir stjórnina.

Ég myndi segja að þetta væri eðlileg kjaftasaga. Þetta væri að mínu viti eðlilegasti kosturinn í stöðunni, að stækka ríkisstjórnina í þessa átt. En þá myndi ég vilja að þremenningarnir gerðu það upp við sig hvorum megin hryggjar þeir væru - að við værum ekki endalaust að stíga pólitískan dans í kringum þau,“ segir Sigmundur Ernir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert