Hjálpa neikvæðir vextir fasteignamarkaðinum?

Viðskipti með fasteignir hafa verið treg á síðustu misserum.
Viðskipti með fasteignir hafa verið treg á síðustu misserum. mbl.is/Rax

Jón Guðmundsson, fasteignasali hjá Fasteignamarkaðinum, segist sjá fá teikn á lofti um að fasteignaverð hækki á næsta ári. Það sé helst að neikvæðir vextir á fjármagni geti ýtt undir aukin viðskipti með fasteignir.

Nú um áramóti tekur gildi nýtt fasteignamat, en gangverð húsnæðis lækkar á landsvísu um 8,6%, en á höfuðborgarsvæðinu er lækkunin víða nálægt 10%. Jón segir að þessi lækkun feli í sér leiðréttingu á fasteignamati vegna lækkunar sem þegar sé orðin.

Jón segir að viðskipti með fasteignir hafi verið treg að undanförnu. „Það eru ekki nokkur teikn á lofti í þjóðfélaginu sem ýta undir hækkun á fasteignaverði. Það er mikið atvinnuleysi og kaupmáttur er að rýrna. Skattar eru einnig að hækka. Það eina sem getur hjálpað fasteignamarkaðinum er að vextir eru mjög neikvæðir. Það getur vel verið að fólk muni sjá sér hag í því að kaupa fasteignir í stað þess að láta peningana liggja inni í banka vaxtalausa.  Það eitt og sér getur leitt til þess að eftirspurn eftir fasteignum verði meiri á komandi ári,“ segir Jón.

Jón segir að útlánsvextir hafi líka lækkað sem feli í sér aukna fyrirgreiðslu við kaupendur og það eigi að ýta undir viðskipti.

Jón segir að fasteignaverð sé orðið lægra en byggingarkostnaður og við þær aðstæður eigi byggingaiðnaðurinn erfitt uppdráttar. Hann segir að ef byggingaiðnaður eigi að komast af stað aftur verði sveitarfélögin að sætta sig við lækkun á lóðaverði.

mbl.is

Bloggað um fréttina