Sáu að sér í Icesave-deilunni

Eyjafjallajökull í ham. Forsetinn segir eldgosið hafa skapað mikinn áhuga …
Eyjafjallajökull í ham. Forsetinn segir eldgosið hafa skapað mikinn áhuga á Íslandi. Ragnar Axelsson

„Það er að sjálfsögðu einfaldlega staðreynd [...] að núverandi stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa einnig viðurkennt að málið sem þau lögðu fyrir Ísland árið 2009 og á fyrri hluta 2010 var í grundvallaratriðum ósanngjarnt,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtali við BBC.

Forsetinn hóf áramótaviðtalið við BBC World Service á samantekt á árinu sem er að líða en endursögn þess birtist hér í lauslegri þýðingu á íslensku. 

„2010 hefur verið miklu betra ár fyrir Ísland en flestir bjuggust við. Í fyrsta lagi er staða efnahagsmála betri. Ferðamannatímabilið er það besta í sögunni. Ýmsum geirum efnahagslífsins gengur mjög vel. Og þótt eldgosið hafi valdið vandræðum, bæði hér og í öðrum ríkjum, tel ég, þegar alls er gætt, að það hafi opnað fyrir áhuga á sem var ekki til staðar áður.

Að sjálfsögðu höfum við gengið í gegnum betri ár en yfir höfuð hefur árið 2010 reynst mun betra en við héldum á þessum tíma fyrir ári.“

Eldfjallið hefur hljóðnað

Blaðamaður BBC World Service: „Hefur eldfallið hljóðnað alveg? (Has the volcano stopped completely)“

„Já. Það hefur hætt að gjósa, samkvæmt vísindamönnunum. Þeir hafa lagt fram þá klínísku greiningu að gosinu sé lokið. Eins og þú veist er Ísland mjög lifandi land, jarðfræðilega séð. Er leið á sumarið sáum við grænt gras spretta upp úr öskunni og bændurna endurheimta styrk sinn. Svo lífið gekk síðan sinn vanagang, eins og það hefur gert í gegnum aldirnar í baráttu okkar við náttúruöflin.“

Gosið skapaði geysilegan áhuga

- Hafði það neikvæð áhrif á hagkerfi landsins, sem var þegar undir nokkrum þrýstingi?

„Já, í nokkrar vikur, að teknu tilliti til þess að flugumferð í öðrum hlutum Evrópu hafði áhrif á Íslandi. En það hefur skapað svo geysilegan áhuga og vitund um fegurð og andstæður íslenskrar náttúru að þetta ár hefur verið eitt það besta í ferðaþjónustu frá upphafi.“ 

Mikil samstaða Íslendinga

- Hvað með bændurna sem reyndu að framfleyta sér á hæðunum í nágrenninu [þ.e. nágrenni Eyjafjallajökuls]. Eru þeir snúnir aftur til starfa?

„Já, að sjálfsögðu. Það skapaðist mikil samstaða í landinu og á svæðinu að því er varðar bændurna. Og að sjálfsögðu gera þeir sem búa á þessum býlum - og í sumum tilvikum hefur sama fjölskyldan verið búsett þar í hundruð ára - sér vel grein fyrir því að þeir búa á hættulegu svæði þar sem margt gerist; eldgos og jökulflóð. 

Svo að félagslega - og að vissu marki sálfræðilega - eru þeir búnir undir slíka atburði og þar af leiðandi, með hjálp björgunarsveita og íslensks samfélags, var þeim kleift að snúa aftur til venjubundinna starfa á nokkrum mánuðum.“

- Þú minntist á að ykkur hefði tekist að breiða yfir ágreininginn við Breta og Hollendinga vegna hruns Icebank [á við Icesave]. En það er undir þinginu komið - er það ekki? - hvort þessar skuldir verði endurgreiddar? 

„Nei. Ég sagði ekki að við hefðum breidd yfir ágreining okkar (e. glossed over our differences)!“

Viðurkenna að samningurinn var ósanngjarn 

- Þú virðist vera að gefa í skyn að Hollendingar og Bretar skilji Íslendinga nú betur?

„Það er að sjálfsögðu einfaldlega staðreynd að kröfurnar sem Bretar og Hollendingar lögðu fram, hvað varðar Ísland árið 2009, að núverandi stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa einnig viðurkennt að málið sem þau lögðu fyrir Ísland árið 2009 og á fyrri hluta 2010 var í grundvallaratriðum ósanngjarnt.“

- En það er einnig skuld sem á eftir að gjalda? (But money is still owing?)

„Ég hef aldrei viðurkennt setninguna „skuld sem á eftir að gjalda“ vegna þess að hér deila þjóðirnar þrjár ábyrgðinni og við skulum ekki gleyma því að bresk og hollensk stjórnvöld greiddu þetta fé út árið 2008 án þess að spyrja Íslendinga áður, í því skyni að vernda bankakerfið í eigin landi. Þess vegna, eins og hefur nú verið viðurkennt, af sérfræðingum og flestum fjölmiðlum sem hafa skoðað málið, snerist þetta mál ekki einfaldlega um útistandandi skuldir.“

Margar jákvæðar fréttir frá Íslandi

- Eldgos, endurgreiðslur skulda - ég minnist á neikvæðu fréttirnar sem hafa borist frá Íslandi í ár - geturðu nefnt eina jákvæða frétt sem hefur farið fram hjá mér?

„Það eru að sjálfsögðu margar jákvæðar fréttir í þessu landi. Þær hafa ef til vill ekki náð eyrum umheimsins. Á mörgum sviðum íslensks samfélags, í sjávarútvegi, orkugeiranum, upplýsingatækni og iðnaðar hefur árið verið mjög gott. Listalífið, menningarlífið okkar, hefur blómstrað.

Vísindamenn hafa skapað nýjar uppfinningar. Svo Ísland kemur út úr þessu ári með mörg svið samfélags, efnahagslífs og menningar í býsna góðu ástandi [...] samskipti okkar við umheiminn hafa verið framúrskarandi.“

Hægt að komast í snertingu við hið mannlega eðli

- Og eins og þú hefur sagt mér er Ísland land til að sækja heim á árinu 2011?

„Já, algjörlega! Það er áhugavert að á meðan ferðaþjónusta skuli vera í niðursveiflu í flestum ríkjum Evrópu hafa árin 2009 og 2010 verið þau bestu í ferðaþjónustu. Fólk er nú að uppgötva að á Íslandi má með mjög afslöppuðum og aðgengilegum hætti verða vitni að sköpun jarðarinnar, jöklunum, eldfjöllunum, svörtu söndunum, eyðimörkum hraunbreiðanna, vatnanna og ánna. Og þú getur raunverulega fundið fyrir mannlegu eðli þínu við krafta sköpunarinnar með hætti sem þú getur í raun hvergi annars staðar gert,“ sagði forsetinn að lokum í viðtalinu sem má nálgast hér.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Forsetinn segir mikla samstöðu hafa skapast á meðal þjóðarinnar með …
Forsetinn segir mikla samstöðu hafa skapast á meðal þjóðarinnar með bændunum undir Eyjafjöllum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert