Alltaf gallaðir flugeldar inn á milli

Flugeldarnir heilla en eru hættulegir.
Flugeldarnir heilla en eru hættulegir. mbl.is

Fimm menn af þeim sjö sem þurftu á augnlækni að halda vegna flugeldaslysa á Nýársnótt sködduðust á augum þegar þeir bogruðu yfir tertur sem ekki kviknaði samstundis í. Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, segir að alltaf geti leynst gölluð eintök inni á milli flugelda. Mikilvægt sé að skoða aldrei úr návígi flugelda sem ekki kvikni strax í, heldur bíða um stund og hella yfir þá vatni ef ekkert gerist. Hann hvetur fólk til að skila gölluðum tertum inn til Landsbjargar.

„Þetta fylgir flugeldum að það geta alltaf orðið bilanir, að kveikurinn brenni hægt eða ekki upp. Þeim mun mikilvægara er að fólk bregðist rétt við og reyni ekki að kveikja aftur í kökum sem fara ekki af stað og alls ekki að bogra yfir flugelda eða tertur, það er stórhættulegt."

Að sögn Kristins hefur kaup á tertum fært talsvert í vöxt og megi ætla að fleiri fjölskyldur hafi kveikt í tertum þessi áramót en oft áður. Að hluta til má því kannski rekja háa tíðni slysa á Gamlárskvöld til þess að fleiri tertur hafi verið í umferð, en Kristinn segist samt sem áður furða sig á því að enginn af þeim sem sködduðust hafi notað hlífðargleraugu. „Við dreifum tugþúsundum gleraugna á hverju ári til almennings. Með því að nota þau minnkum við verulega líkur á því að svona geti gerst. Okkur þykir afar sorglegt og leiðinlegt að svona slys skuli verða."

Hinir tveir sem slösuðust illa á Gamlárskvöld voru ekki sjálfir að kveikja í flugeldum heldur voru aðeins áhorfendur. Afar mikilvægt er því að þeir sem eru í námunda við flugelda sem verið er að kveikja upp í noti hlífðargleraugun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert