Drynur enn í Eyjafjallajökli

Eyjafjallajökull.
Eyjafjallajökull. rax

„Þetta getur alveg átt við rök að styðjast ef vindáttin stendur að manni, maður heyrir þetta af og til," segir Kristján Guðmundsson lögreglumaður á Hvolsvelli um fréttir þess efnis að drunur hafi heyrst úr Eyjafjallajökli í kvöld. DV hefur eftir bónda í nágrenni Eyjafjallajökuls að drunur áþekkar þeim sem heyrðust áður en byrjaði að gjósa hafi heyrst í dag, þó öllu lægri.

Kristján segir að fleiri kannist við það í Rangárþingi eystra að drunur heyrist frá jöklinum undan vindi. „Maður heyrir hljóð af og til en ég veit ekkert hvað það þýðir og erfitt að spá um það. Þetta fór nú fyrirvaralaust af stað á sínum tíma og við vitum að þetta er enn opið þarna niður og bullar og kraumar í þessu."

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni kemur ekkert fram á mælum sem bendir til aukinna hræringa í Eyjafjallajökli. Skjálftavakt er allan sólarhringinn á Veðurstofunni.  

mbl.is

Bloggað um fréttina