Slasaðist alvarlega í Austurríki

Horft yfir Innsbruck í Austurríki.
Horft yfir Innsbruck í Austurríki.

Íslenskur karlmaður slasaðist alvarlega þegar hann féll fram af hárri hengju við borgina Innsbruck í Austurríki um áramótin. Hann liggur nú á sjúkrahúsi, en hann hlaut mænuskaða og er lamaður fyrir neðan mitti.

Pétur Kristján Guðmundsson, sem er 24 ára gamall, hafði verið að fylgjast með flugeldasýningu af fjallshlíð á gamlárskvöld með vini sínum, skömmu áður en slysið varð. Á leiðinni niður hlíðina féll Pétur fram af hengju með fyrrgreindum afleiðingum. Félagi hans kallaði eftir aðstoð sem barst fljótlega.

Guðmundur Geir Sigurðsson, faðir Péturs, segir að sonur sinn hafi gengist undir aðgerð á sjúkrahúsinu og síðan hafi honum verið haldið sofandi í tvo sólarhringa. Í framhaldinu hafi Pétur verið vakinn og hann sé nú með fullri meðvitund, en hann hlaut ekki alvarlega höfuðáverka. Hann  hlaut hins vegar mænuskaða við fallið og  hryggjarliður brotnaði með þeim afleiðingum að hann er nú lamaður fyrir neðan mitti.

Pétur, sem er hálfþýskur, er búsettur á Íslandi en hafði verið á ferðalagi með kærustu sinni og vinum í Austurríki þegar slysið varð.

Að sögn Guðmundar er unnusta Péturs, móðir hans, vinir og nánustu ættingjar nú hjá honum í Austurríki. Þá segist Guðmundur vera á leiðinni til að hitta son sinn til að veita honum þann stuðning sem hann þurfi á að halda.

Þá er hafinn undirbúningur að því að flytja Pétur til Íslands. Guðmundur segir að það liggi ekki fyrir hvenær af því verði, en vonandi eins fljótt og auðið sé.

Á Facebook hefur verið sett upp stuðningssíða fyrir Pétur.

mbl.is