Verðtrygging forsenda vaxtakjaranna

Eignaleigan Lýsing segir að þeir hlutar gengistryggðra bílasamninga, sem séu í íslenskum krónum, verði óbreyttir og reiknist með verðtryggingu sem miðuð sé við vísitölu neysluverðs. 

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest þá niðurstöðu Neytendastofu, að samningsskilmálar á bílasamningi hjá Lýsingu brytu að nokkru leyti gegn ákvæðum laga um neytendalán og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Var talið skorta á upplýsingar um vexti lánsins, bæði erlendan og íslenskan hluta þess. Þá taldi áfrýjunarnefndin, að Lýsing beri ábyrgð á því, að félagið hafi fyrir mistök ekki greint frá því á bílasamningum, að íslenskur hluti bílalána væri verðtryggður.

Lýsing segir á heimasíðu sinni, að samningsformin hafi verið endurskoðuð og bætt úr þeim atriðum sem gerðar voru athugasemdir við.

Þá segir Lýsing, að það hafi verið forsenda samninganna af hálfu Lýsingar, að vextir væru samkvæmt gjaldskrá félagsins. Hafi leigutaka mátt vera þessi forsenda ljós. Verðtryggingin hafi síðan haft úrslitaáhrif á samning um vaxtakjör og gjaldskrá Lýsingar frá þessum tíma endurspegli þau vaxtakjör, sem voru í boði annars vegar á verðtryggðum samningum og hins vegar á óverðtryggðum samningum. „Því má ljóst vera að verðtryggingin er forsenda þeirra vaxtakjara sem samið var um," segir á heimasíðunni. 

Fyrirtækið segir, að sá hluti samnings sem sé í íslenskum krónum verði óbreyttur og reiknist með verðtryggingu sem miðuð sé við vísitölu neysluverðs. Vextir miðist við verðtryggða vexti samkvæmt gjaldskrá Lýsingar á hverjum tíma.

mbl.is