Dúettar í karókí

Óvenjulegir dúettar voru sungnir í Norræna húsinu í dag þegar Björk Guðmundsdóttir hleypti af stokkunum karókímaraþoni sem á að standa yfir í þrjá daga. Þar verður flutt tónlist til stuðnings náttúru Íslands og til að leggja áherslu á kröfu um að náttúruauðlindir verði í almannaeigu.

Björk söng þarna lagið Þrjú hjól undir bílnum, ásamt Ómari Ragnarssyni, Ólafur Stefánsson og Páll Óskar sungu Allt fyrir ástina og fleiri söngvarar spreyttu sig á þekktum lögum.

Í tengslum við karókímaraþonið stendur hópurinn Rödd þjóðarinnar fyrir undirskriftarsöfnun á vefnum orkuaudlindir.is, þar sem skorað er á stjórnvöld að stöðva söluna á HS Orku til Magma Energy. Hópurinn vill að ný orkulög verði sett og að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um nýja orkustefnu. 

Hægt er að skrá sig í karókíið í Norræna húsinu og einnig er hægt að syngja í Bolungarvík, Akureyri og á Selfossi og í Kántríbæ á Skagaströnd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert