Andlát: Helga Bachmann

Helga Bachmann.
Helga Bachmann.

Helga Bachmann leikkona og leikstjóri lést í gær, föstudaginn 7. janúar, 79 ára að aldri.

Helga fæddist hinn 24. júlí árið 1931 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru þau Guðrún Þórdís Jónsdóttir Bachmann klæðskeri frá Litlabæ á Álftanesi og Hallgrímur Jón Jónsson Bachmann ljósameistari frá Steinsholti í Leirársveit.

Helga var gift Helga Skúlasyni leikara og leikstjóra en hann lést árið 1996. Saman áttu þau börnin Hallgrím Helga, Skúla Þór og Helgu Völu. Fyrir hjónaband átti Helga dótturina Þórdísi Bachmann.

Helga lauk gagnfræðaprófi frá Hallormsstaðarskóla árið 1948. Þá stundaði hún tveggja ára nám við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og nám við Leiklistarskóla Gunnars R. Hansens árið 1953.

Helga hóf að leika hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 1952 og var þar fastráðinn leikari frá 1962-1976. Þá var hún fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið frá 1976-2000. Síðasta hlutverk hennar þar var í leikritinu „Maður í mislitum sokkum“ sem sýnt var um allt land yfir hundrað sinnum. Einnig lék hún í þekktum kvikmyndum eins og „Í skugga hrafnsins“ og „Atómstöðinni“.

Helga var fyrsti formaður Hlaðvarpans frá 1984-1987 og sat í stjórn Friðarsamtaka listamanna. Þá var hún sæmd Riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1986 og leiklistarverðlaununum Silfurlampanum árið 1968.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert