Búa við ömurlegar aðstæður á Indlandi

Jóel Færseth Einarsson, drengurinn sem fæddist á Indlandi í nóvember.
Jóel Færseth Einarsson, drengurinn sem fæddist á Indlandi í nóvember. Ljósmynd/Helga Sveinsdóttir

Dögg Pálsdóttir, lögmaður íslenskra hjóna sem eignuðust barn á Indlandi með aðstoð staðgöngumóður, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld, að hjónin byggju á Indlandi við verri aðstæður en hægt væri að ímynda sér. Ekki hefur verið gefið út íslenskt vegabréf fyrir barnið enn þótt Alþingi hafi veitt því íslenskan ríkisborgararétt með lögum fyrir jól.

Indversk kona eignaðist barnið með gjafasæði frá íslenska manninum. Fram kom í viðtali Kastljóss við Helgu Sveinsdóttur, eiginkonu mannsins, að þau hjónin hefðu ákveðið að leita til Indlands vegna þess að það hefði verið mun ódýrara en að fara til dæmis til Bandaríkjanna. Sagði hún aðspurð kostnaðinn vera um 3 milljónir króna.

Þá sagði Helga, að allir þeir pappírar, sem krafist væri á Indlandi, lægju fyrir, þar á meðal yfirlýsing frá eiginmanni staðgöngumóðurinnar um að hann gerði engar kröfur til barnsins. Þá hefði verið gefið út fæðingarvottorð þar sem íslensku hjónin eru skráðir foreldrar. 

Dögg sagði, að til þessa hefðu hérlend stjórnvöld tekið gild fæðingarvottorð, sem gefin eru út í útlöndum. En eftir að íslensku hjónin gerðu samning við indversku konuna og þarlendan lækni um málið virðist framkvæmd þessara mála hafi verið hert hér og á Norðurlöndunum, vegna þess að staðgöngumæðrun fari vaxandi.  

Íslensku hjónin hafi þó ekki átt annars úrkosti en að fara til Indlands og taka á móti barninu eins og þau höfðu samið um.  Á Indlandi væri síðan litið svo á, að íslensku hjónin ættu barnið enda hefði verið farið eftir þeim lögum, sem gilda um svona mál þar í landi. 

Dögg sagði, að svo virtist sem íslensk stjórnvöld ætlist til þess, að Indverjar geri hlutina á Indlandi eins og Íslendingar gera á Íslandi þótt regluverkið væri allt annað.  Og þótt fæðingarvottorðið væri gefið út af indverskum stjórnvöldum teldu íslensk stjórnvöld sig ekki geta samþykkt efni þess enda væri vitað að það sem þar kæmi fram væri rangt, þótt vottorðið væri rétt miðað við regluverkið á Indlandi.

„Það vill enginn þetta barn á Indlandi," sagði Dögg og bætti við að nú stæðu menn frammi fyrir orðnum hlut, barnið væri fætt og á Íslandi giltu líka lög sem ættu að tryggja að það væri gert sem væri barninu fyrir bestu. Ef stjórnvöld vildu með þessu reyna að koma í veg fyrir að aðrir foreldrar færu þessa leið þá væri þetta hræðileg aðferð fyrir foreldrana og barnið. Nær væri að gefa út vegabréf fyrir  barnið og leysa úr lagaflækjunni þegar foreldrarnir komi heim með það.

Fram kom hjá Helgu að landvistarleyfi þeirra hjóna á Indlandi rennur út í mars og verði málið ekki leyst þá verði þau að fara úr landi til að komast hjá fangavist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert