Safamýrarskóli og Öskjuhlíðaskóli sameinast

Menntaráð Reykjavíkur samþykkti í dag að sameina starfsemi Safamýrarskóla og Öskjuhlíðarskóla. Tillögu þess efnis verður beint til borgarráðs.

Gert er ráð fyrir því að nýr sameinaður sérskóli starfi í húsnæði Öskjuhlíðarskóla og taki til starfa næsta haust. Fram að þeim tíma undirbúi starfshópur starfsemi nýja skólans með stefnumótun og verkáætlun sem taki til breytinga á húsnæði, starfsmannahaldi og upplýsingamiðlun til allra hagsmunaaðila.

Menntaráð samþykkti jafnframt að nýr sameinaður sérskóli skuli sinna ráðgjafarhlutverki gagnvart almennum grunnskólum um kennslu nemenda með þroskahömlun. Einnig að hann hafi umsjón með því að stofnað verði til svokallaðra þátttökubekkja í stað hefðbundinna sérdeilda í fjórum almennum grunnskólum í borginni fyrir nemendur með þroskahömlun. 

Í greinargerð með tillögum menntaráðs kemur m.a. fram að Öskjuhlíðarskóli og Safamýrarskóli, sem voru byggðir voru 1974 og 1982, hafi verið útbúnir fyrir aðra nemendahópa en nú eru í skólunum. Eins sé réttur fatlaðra barna til skólagöngu í heimaskóla orðinn skýr í lögum og nánast allir nemendur með sambærilegar þarfir og voru í sérskólum áður séu nú í almennum grunnskólum með stuðningi.

Í Öskjuhlíðarskóla eru nú 80 nemendur og í Safamýrarskóla 10 nemendur. Að sögn Reykjavíkurborgar má búast við að nemendur Safamýrarskóla verði aðeins 6 á næsta skólaári.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert