Ósammála um löndunarbann

Á makrílveiðum.
Á makrílveiðum. mbl.is/Ómar

„Það sem haft er eftir blaðafulltrúanum stangast algjörlega á við það sem kom fram á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í dag, sá fundur var haldinn að ósk framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og að þeirra sögn einungis til að upplýsa um það að Evrópusambandið hefði til skoðunar að setja löndunarbannið á. Í því er ekkert nýtt, þeir hafa sagt það áður en gera það með formlegum hætti með þessu,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra þegar falast var eftir viðbrögðum hans við þeirri frétt að Evrópusambandið hefði ákveðið með formlegum hætti að leggja bann á löndun makríls frá Íslandi í höfnum ESB-ríkja.

Samkvæmt tilkynningu frá blaðafulltrúa Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, frá því í gær ákvað Evrópusambandið með formlegum hætti að leggja á bann á fundi í sameiginlegu EES-nefndinni í gær og átti það að taka strax gildi.

„Mér er tjáð að þessi ákvörðun liggi ekki fyrir innan ESB og hana eigi eftir að taka í þar til bærum stofnunum. Sömuleiðis kom það skýrt fram á fundinum að þeir lýstu fullum vilja til þess að taka upp viðræður og reyna að ljúka þessu máli. Við mótmæltum að sjálfsögðu áformum þeirra og sögðum mjög ákveðið að það væri ekki góð aðferð til þess að leysa deilu að hefja beitingu refsiaðgerða af þessu tagi,“ sagði Össur.

Hann útilokar ekki að makríldeilan geti haft áhrif á aðildarviðræður Íslands að ESB ef hún fer í hart.

„Mér finnst það annars ólíklegt, þetta er hefðbundin fiskveiðideilda en ef hún dregst á langinn og ef ekki finnst lausn þá útiloka ég það ekki. Ég dreg það líka í efa að ýmsar vinaþjóðir okkar sem vinna innan Evrópusambandsins telji rétt af hálfu ESB að grípa til svona ráðstafana á þessu stigi málsins en það verður bara að koma í ljós.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert