Vilja fækka öspum í borginni

Aspir í Laugardal í Reykjavík.
Aspir í Laugardal í Reykjavík. mbl.is/Golli

Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað í dag, að vísa tillögu Besta flokksins og Samfylkingarinnar um fækkun aspartrjáa í borginni, til umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar. Samkvæmt tillögunni á garðyrkjustjóri Reykjavíkur að móta áætlun um hvernig best sé að fækka öspum í miðborginni.

Þá vilja flokkarnir að jafnframt verði hafist handa við að fjarlægja aspir af Sólvallagötu, í Vonarstræti og á Laugavegi og önnur tré verði sett í staðinn. 

Jón Gnarr, borgarstjóri, lýsti því yfir í pistli á heimasíðu Besta flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar sl. vor, að flokkurinn vildi hætta að hugsa skipulag borgarinnar í skyndilausnum og skítareddingum.

„Besti flokkurinn vill fækka öspunum í miðbænum og planta í staðinn fallegum trjám sem eiga sér lengri hefð í Reykjavík og henta líka betur inni í borg en ösp. Það er til svo mikið af fallegum trjám sem dafna vel á Íslandi. Garðahlynur er eitt fallegasta tré á Íslandi. Hlynurinn á horni Vonarstrætis og Suðurgötu er eitt þekktasta tré landsins. Hann er miklu fallegri en ösp. Hann væri til dæmis mjög flottur eftir endilangri Sóleyjargötunni þar sem búið er að plompa niður helling af forljótum öspum. Og svo er það íslenska birkið. Besti flokkurinn vill sjá meira birki í miðbænum,“ sagði í pistli Jóns Gnarr.  

mbl.is

Bloggað um fréttina