Rannsókn stóð í nokkrar vikur

Byggingin við Austurstræti þar sem tölvan fannst.
Byggingin við Austurstræti þar sem tölvan fannst.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að það sé misskilningur að rannsókn málsins hafi verið lokið viku eftir að fartölvan fannst 2. febrúar 2010. Rannsóknin hafi verið í gangi í nokkrar vikur í febrúar en eftir það hafi ekki verið talið að lögregla hefði næg gögn til að halda henni áfram.

Fingrafararannsókn hafi á hinn bóginn lokið viku eftir að tölvan fannst.

Aðspurður sagði Stefán að í ljósi þess að engar vísbendingar voru um hver hefði komið tölvunni fyrir eða í hvaða tilgangi, hefði lögregla metið það sem svo að ekki hefði verið nauðsynlegt að yfirheyra þingmenn eða aðra sem vitni í málinu. Margir tugir hefðu farið þarna um á þessum tíma. Lögregla hefði metið sem svo að slíkt myndi ekki skila upplýsingum sem myndu varpa frekara ljósi á málið.

Fartölvan  var fyrst sett í samband við tölvukerfi þingsins 28. desember 2009. Þetta kom fram við athugun tölvudeildar Alþingis en þingmönnum var tilkynnt um niðurstöðu hennar með tölvupósti í gær.

Tölvudeildin kannaði í fyrradag svokallað tölvulogg eða tölvuskrá sem sýndi að fartölvan var sett í samband 28. desember og var í sambandi til 2. febrúar 2010, eða í rúman mánuð, þegar hún fannst. Að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, hafði borðtölva sem var inni í herberginu verið tekin úr sambandi en þess í stað var aðskotatölvan tengd með tölvukapli við tölvulagnir í herberginu og þar með við tölvukerfi Alþingis.

Sá aðgangur sem fæst með því að tengjast tölvukerfinu með þessum hætti er afar takmarkaður, að sögn Helga. Menn komist ekki í nein gögn nema hafa lykilorð eða búnað sem getur brotist í gegnum öryggiskerfi. Ekki sé t.d. aðgangur að gögnum þingmanna, tölvupósti eða vinnugögnum hjá nefndum Alþingis.

Lítil umferð um tölvuna

Þegar kveikt er á fartölvum þarf að lyfta skjánum frá lyklaborðinu. Að sögn Helga var fartölvan lokuð til hálfs þegar hún fannst. Þá var hún að stórum hluta hulin skjölum og öðrum gögnum sem lágu á skrifborðinu. Fartölvan sást því ekki þegar litið var inn í herbergið og starfsmaður þingsins sá hana ekki fyrr en hann var kominn að skrifborðinu, en þangað fór hann til að sækja prentara sem koma átti fyrir í öðru herbergi. Óvíst sé hvort tölvan hafi verið notuð til að stela gögnum. „Það er ekkert sem bendir til þess að neitt hafi gerst. Það er þó ekki útilokað en það bendir flest til þess að það hafi verið mjög lítil umferð um þessa tölvu,“ sagði Helgi.
mbl.is

Bloggað um fréttina