Vilji til að láta sölu á HS Orku ganga til baka

Björk Guðmundsdóttir ræðir við Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon …
Björk Guðmundsdóttir ræðir við Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon á tröppum Stjórnarráðsins þegar hún afhenti undirskriftalista gegn sölunni á HS Orku. mbl.is/Ómar

Björk Guðmundsdóttir sagði við kanadískt dagblað í vikunni, að íslensk stjórnvöld vilji láta söluna á HS Orku til kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy ganga til baka.

Björk afhenti nýlega Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni tæplega 50.000 undirskriftir þar sem er skorað á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á orkufyrirtækinu HS Orku til sænska fyrirtækisins Magma Energy.

„Þau sögðu okkur að þau vildu láta (Magma) viðskiptin ganga til baka og tryggja að íslensk orkufyrirtæki og aðgangur að orku verði áfram í eigu almennings," hefur blaðið  National Post eftir Björk. „Þeim er alvara."

Haft er eftir Björk að nú snúist málið aðeins um það hvaða aðferð verði beitt. Þrjár leiðar séu færar, þar á meðal að taka HS Orku eignarnámi.

Talsmaður Magma sagði hins vegar að ummæli Bjarkar væru aðeins vangaveltur og sögusagnir og íslensk stjórnvöld hefðu ekki gefið fyrirtækinu til kynna að breytinga væri að vænta.

„Við fylgjumst með þróuninni einnig. Við höfum gengið í gegnum þrjár rannsóknir. Okkur hefur verið sagt að ekki verði farið yfir málið að nýju," hefur blaðið eftir Alison Thompson, talsmanni Magma.  

Hún segir, að hugsanlega hafi „tilteknir leiðtogar þurft að segja tiltekna hluti," til að höfða til þjóðfélagshópa á Íslandi vegna þess að íslenska ríkisstjórnin standi illa.   

Frétt National Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert