Meirihluti vill halda viðræðum áfram

Fánar Evrópusambandsins utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel.
Fánar Evrópusambandsins utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. mbl.is/GSH

65,4 sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Fréttablaðsins, vilja að  aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði lokið og samningur lagður í þjóðaratkvæðagreiðslu. 34,6% vilja að umsóknin verði dregin til baka.

Blaðið segir, að heldur hafi fjölgað í hópi þeirra sem vilja ljúka viðræðum við ESB frá því  í september í fyrra. Þá vildu 64,2% halda viðræðum áfram en 35,8% draga umsóknina til baka.  Aðeins meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vildu fleiri draga umsóknina til baka en ljúka viðræðunum. Um 50,9% vildu stöðva viðræðurnar en 49,1%  ljúka þeim.

Stuðningur við að ljúka viðræðunum er mestur innan Samfylkingarinnar.  85,3% vilja halda áfram viðræðum en 14,7% hætta þeim. 67,2% stuðningsmanna Vinstri grænna vilja ljúka viðræðunum, 3,6 prósentum fleiri en í september. 32,8% þeirra vilja draga umsóknina til baka. 51,3% stuðningsmanna Framsóknarflokksins  vilja halda viðræðunum áfram en 48,7% slíta þeim.

Hringt var í 800 manns miðvikudaginn 19. janúar.  Alls tóku 87,5% afstöðu til spurningarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert