Alþingis að ákveða hvort kosið verði að nýju

Landskjörstjórn tilkynnir úrslitin í stjórnlagaþingskosningunum.
Landskjörstjórn tilkynnir úrslitin í stjórnlagaþingskosningunum. mbl.is/Eggert

Gísli M. Auðbergsson, lögmaður á Eskifirði, segir að það sé Alþingis að ákveða hvort kosið verði aftur til stjórnlagaþings eða látið við svo búið sitja, eftir ógildingu Hæstaréttar. Það sé pólitísk spurning en ekki lögfræðileg.

Gísli segir að lög um endurteknar kosningar sem úrskurðaðar eru ógildar eigi ekki við um kosningarnar til stjórnlagaþings. Ekki hafi verið vísað til þess ákvæðis kosningalaga í lögunum um stjórnlagaþing.

„Þetta er nákvæmlega sú niðurstaða sem mér fannst eiga að koma en þorði ekki að trúa fyrr en á reyndi. Þetta er kórrétt niðurstaða hjá Hæstarétti,“ segir Gísli. Hann er lögmaður á lögmannsstofunni Réttvísi sem fer með mál eins kærandans, Þorgríms S. Þorgrímssonar, vélvirkja- og rennismíðameistara í Neskaupstað.

„Það er aldrei hægt að vanda sig of mikið við framkvæmda kosninga. Þannig á það að vera,“ segir Gísli.

mbl.is