Hissa á að svo stórt verkefni sé ekki betur hugsað

Silja Bára Ómarsdóttir.
Silja Bára Ómarsdóttir. mbl.is/Frikki

„Það kemur manni svolítið á óvart að í svona stóru verkefni skuli ekki vera hugsað um að samræma kosningalögin og framkvæmdina, það er það sem maður er mest hissa á," segir Silja Bára Ómarsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur og einn stjórnlagaþingsmanna. Framkvæmdin sé dýr mistök.

„En auðvitað er maður mest svekktur vegna þess að ég hefði ekki boðið mig fram nema þetta væri verkefni sem ég trúi að sé mikilvægt og er tilbúin að taka þátt í. Nú veit maður ekki hvernig eða hvenær það verður, hvort það verður farið í aðrar kosningar og hvort maður er þá tilbúin í það."

Silja Bára segir að sjálf muni hún geta nýtt tímann sem fara átti í stjórnlagaþingið til rannsóknarvinnu en það sé vissulega svekkjandi að hafa lagt svo mikla vinnu í undirbúning þings sem ekki verður af og margir hafi gert ráðstafanir í vinnu og einkalífi til að geta sinnt því af heilum hug.

Hún segist ekki geta tjáð sig um það strax hvort rétt væri að kjósa aftur eða ekki. „Það er verkefni Alþingis að skoða hvernig á að standa að þessu núna, en ég taldi þetta mikilvægt og hefði vilja að þetta væri gert rétt."

mbl.is