Fréttaskýring: Líkur á að álverið rísi í Helguvík minnka á hverjum degi

Heimildir Morgunblaðsins herma að Norðurál haldi því fram að allt …
Heimildir Morgunblaðsins herma að Norðurál haldi því fram að allt að því fimm milljarðar hafi þegar farið í undirbúning álversins í Helguvík. mbl.is/Golli

Fullkomin óvissa er uppi um hvort álver við Helguvík verði nokkurn tímann að veruleika. Aðilar kunnugir málinu segja að helst vilji þeir sem hafa skuldbundið sig til að selja Norðuráli orku fyrir álverið losna undan samningunum, ef ekki fæst veruleg hækkun á umsömdu orkuverði.

Fyrir skömmu sló í brýnu milli þeirra sem hafa skuldbundið sig til að útvega orku til álversins og Norðuráls, dótturfélags bandaríska álrisans Century Aluminum. Heimildir Morgunblaðsins herma að bæði Orkuveita Reykjavíkur, sem hefur skuldbundið sig til að selja Norðuráli allt að því 175 megavött á ári hverju, og HS Orka telji núverandi orkusölusamninga fela í sér langt því frá fullnægjandi arðsemi á nauðsynlegum virkjanaframkvæmdum.

Gerðardómur mun í maí næstkomandi úrskurða hvort HS Orku beri að standa við orkusölusamning sem gerður var við Norðurál á árinu 2007 um orkuöflun fyrir álver í Helguvík. En gerður hefur verið orkusölusamningur upp á 200 megavött fyrirtækjanna á milli. Gerðardómurinn verður skipaður af þremur mönnum, einum tilnefndum af HS Orku, einum af Norðuráli og einum sem aðilar málsins tilnefna í sameiningu.

Breyttar forsendur

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma Energy á Íslandi, eiganda HS Orku, segir að gerðardómurinn sé samningsbundinn. En eins og Morgunblaðið sagði frá í ágúst á síðasta ári stefndiNorðurál HS Orku fyrir gerðardóm í Svíþjóð. Forsendur orkusölusamningsins séu brostnar, að sögn Ásgeirs, þar sem allur kostnaður við úrvinnslu jarðvarmaorku hafi hækkað mikið á síðastliðnum árum og fjármögnun orðin erfiðari og dýrari en áður var. Þrátt fyrir að vextir hafi lækkað á heimsvísu er vaxtaálag HS Orku mun hærra en fyrir fjórum árum síðan. Að sögn Ásgeirs þarf HS Orka um 70 milljarða króna fjármögnun vegna Helguvíkurverkefnisins, en þeir peningar liggi ekki á lausu á Íslandi um þessar mundir.

Þjóðnýtingarumræða skaðleg

„Það er fyrst núna, þegar rætt er um eignarnám og þjóðnýtingar, sem HS Orka hefur fengið einna neikvæðastar móttökur hjá erlendum fjármálastofnunum. Núna eru menn raunverulega að ræða um það utan landsteinanna að á lánveitingar til Íslands þurfi að reikna sérstakt áhættuálag vegna pólitískrar áhættu,“ segir Ásgeir, sem leggur áherslu á að vilji HS Orku standi til þess að álverið í Helguvík rísi, en hann vill ekki gefa upp hversu mikið hann telji orkuverð þurfa að hækka, til að það teljist ásættanlegt fyrir þá sem eiga að útvega orku til Helguvíkur.

Segir kostnað nú lægri

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segist í samtali við Morgunblaðið ekki geta rætt efnisatriði orkusamninga í fjölmiðlum. „Staðreyndir málsins eru þær að samið var um þessa orku árið 2007,“ segir Ragnar. „Síðan þá hafa framtíðarhorfur fyrir álframleiðslu batnað mikið, það er að segja ef við horfum til framtíðarvæntinga um álverð. Kostnaður við slíka framleiðslu á Íslandi hefur lækkað í dollurum mælt og LIBOR-vextir eru innan við hálft prósent. Innlendur byggingarkostnaður hefur því lækkað mikið,“ segir Ragnar.

Hann segir að viðræður séu í gangi milli Norðuráls og HS Orku. Vill hann ekki tjá sig um hvort fyrirtækið muni krefjast skaðabóta úr höndum HS Orku, standi fyrirtækið ekki við gerða orkusölusamninga: „Við höfum átt mjög gott samstarf við HS Orku hingað til, á Grundartanga, og gerum ráð fyrir að það breytist ekki. Vegna þess bindum við vonir við að hægt verði að leysa úr ágreiningsefnum tengdum Helguvík. Menn eru að reyna að finna út úr þessu, hvernig verður haldið áfram með verkefnið og á hvaða forsendum. Ef það tekst ekki verður eitthvað annað sem gerist, en ég vil ekki ræða slíka hluti á þessari stundu,“ segir Ragnar.

Samkomulag frá árinu 2005

Norðurál, Reykjanesbær og Hitaveita Suðurnesja undirrituðu samkomulag um könnun á möguleikum á rekstri álvers í Helguvík í landi Reykjanesbæjar í maí 2005. Viðræður höfðu staðið yfir um nokkurra mánaða skeið. Upphaflega var reiknað með að framleiðsla myndi hefjast í Helguvík á árunum 2010 til 2015 í allt að 200-250 þúsund tonna álveri. Síðar var ákveðið að stækka það álver upp í 360 þúsund tonn, en seinna var ákveðið að minnka það aftur í 270 þúsund tonn. Mikil eftirvænting ríkti í Reykjanesbæ eftir byggingu álversins, bæði meðal íbúa og bæjaryfirvalda, enda hefur atvinnuleysi verið í meira lagi á Suðurnesjum síðastliðin ár. Þannig var gerð könnun árið 2006 þar sem kom fram að tveir þriðju íbúa Reykjanesbæjar væru mjög hlynntir eða frekar hlynntir byggingu álvers í Helguvík.

Fyrirhugað var að álver Norðuráls í Helguvík yrði það fyrsta í heiminum sem yrði eingöngu knúið jarðvarmaorku. Fyrsta skóflustungan að álverinu var tekin í júní 2008, rúmlega þremur mánuðum áður en hagkerfi Íslands hrundi með bönkunum.

thg@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert