Orkuveitan verður ekki einkavædd

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík.
Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, segir að ekki standi til að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur. Hann segir að ummæli stjórnarformanns Orkuveitunnar um rekstrarform fyrirtækisins séu hans skoðanir og það sé fagnaðarefni að menn velti upp hugmyndum. Umræðan sé alltaf til góðs.

Haraldur Flosi Tryggvason sagði í viðtali við viðskiptablað Morgunblaðsins að sem rekstrarmaður sæi hann ekki hvaða yfirburði opinber orkufyrirtæki hefðu yfir sambærileg fyrirtæki í einkarekstri.  Jón Gnarr sagðist líta svo á að Haraldur Flosi hefði verið að benda á opinber eignarhald væri ekki fullkomið og án galla. „Mér finnst bara mjög flott hjá honum að vekja mál á þessu því að þetta er eitthvað sem við þurfum að ræða og skoða.

Mín skoðun er sú að allar auðlindir þjóðarinnar eigi að vera í þjóðareign og að það eigi að vera bundið í stjórnarskrá. Hvað varðar nýtingu á þeim, þá er það annað mál. Við þurfum líka að ræða um hvernig þjóðin á að yfirtaka auðlindir sem núna eru í einkaeign, eins og við höfum verið að ræða um í sambandi við fiskinn í sjónum. Vandamálið er að það hefur ekki verið nægilega vel skilgreint, t.d. um lengd leigutíma á nýtingu auðlinda og aðra skilmála.“

Jón sagði slæmt ef menn megi ekki ræða þessa hluti málefnalega án þess að menn bregðist við með upphrópunum. „Við þurfum að passa okkur í allri umræðu um þessi mál að vera laus við kreddur. Hlutirnir eru yfirleitt ekki annað hvort svartir eða hvítir. Fólk á að geta komið fram og tjáð einhverja skoðun án þess menn bregðist við með alhæfingum. Umræðan fer oft í þetta far. Ég er t.d. á móti öspum í miðbænum, en því er stundum lýst á þann hátt að ég sé hatursmaður þessarar trjátegundar, sem er alls ekki rétt.“

Jón Gnarr sagði að meirihlutinn hefði ekki rætt um að breyta um stefnu í málefnum Orkuveitunnar. Haraldur Flosi hefði verið að lýsa sinni persónulegu skoðun í viðtalinu. „Ég vil taka fram svo það sé alveg á hreinu að það stendur ekki til að einkavæða Orkaveitunnar. Það hefur ekki komið til skoðunar og stendur ekki til.“

Jón sagði að Orkuveitan væri undir miklu álagi og það væri verið að leita allra leiða til að endurfjármagna fyrirtækið. Menn væru að vinna að því að koma fyrirtækinu í var. Eitt af því sem hefði verið kynnt væri hvort hægt væri að selja eignir sem Orkuveitan á, en það væri ekki auðvelt við það eiga núna.

Jón var spurður hvort honum þætti koma til greina að Orkuveitan gerði samning við einkafyrirtæki um nýtingu á t.d. borholu eða  svæði sem fyrirtækið réði yfir. „Ég útiloka það ekki, en tek fram að ég hef ekki náð að skoða það vel. Það er hins vegar grundvallaratriði að forsendurnar séu á hreinu. Auðlindirnar eiga að vera í almannaeign en síðan sé nýtingin á þeim eftir einhverri forskrift. Sú forskrift er hins vegar ekki til í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert