Skoðað hvort fjármálafyrirtæki beri kostnaðinn

Fjárlaganefnd Alþingis hefur vísað því til viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar þingsins, að þær tækju til skoðunar hvort og þá hvernig því verði við komið að íslensk fjármálafyrirtæki beri þann kostnað sem annars hefði fallið á ríkissjóð vegna Icesave-málsins.

Þetta kemur fram í áliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis þar sem fjallað er um lagafrumvarp um að heimila fjármálaráðherra að staðfesta nýtt Icesave-samkomulag. Að álitinu standa þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í nefndinni. Leggja þeir til þess að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu, að sett verði bráðabirgðaákvæði um að fjármálaráðherra verði á þessu ári heimilt að greiða allt að 26,1 milljarð króna vegna vaxtagjalda af skuldbindingum tengdum Icesave.

Í nefndarálitinu kemur fram, að á fundum fjárlaganefndar hafi verið  rætt um að eðlilegt gæti talist að fjármálafyrirtæki bæru allan þann kostnað sem af samningunum við Breta og Hollendinga um Icesave kynni að hljótast. Muni þingnefndirnar tvær kanna þetta sérstaklega.

Nefndarmeirihlutinn telur, að þessari skoðun þurfi ekki að vera lokið áður en Icesave-frumvarpið verði að lögum þar sem um sé að ræða mál sem ekki snerti samskipti við Breta og Hollendinga eða efni frumvarpsins að öðru leyti.

Álit meirihluta fjárlaganefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert