12 milljóna kostnaður við stjórnlaganefnd

Stjórnlaganefnd hóf störf í júní á seinasta ári.
Stjórnlaganefnd hóf störf í júní á seinasta ári. mbl.is

Heildarkostnaður ríkisins við stjórnlaganefndina sem kosin var í júní í fyrra vegna undirbúnings fyrir stjórnlagaþing var rúmar 12 milljónir kr. um seinustu áramót. Þetta kemur fram í svari forseta Alþingis við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Fram kemur í svarinu að greiðslur til nefndarmanna, sem eru sjö talsins, eru ákveðnar af forseta Alþingis. Hverjum nefndarmanni eru greiddar 15 einingar (25.110 kr.) fyrir hvern formlegan vinnufund, sem stendur í minnst 2 stundir, og telst sú greiðsla þóknun fyrir bæði fundarsetuna og nauðsynlegan undirbúning fundarins. Formaður fær hálfu meira, eða 22,5 einingar, fyrir hvern formlegan vinnufund.

Kostnaðurinn skiptist þannig að nefndaþóknanir voru 8,6 milljónir, launatengd gjöld tæplega 1,5 milljónir og ferðakostnaður, gisting og fundaraðstaða rúmlega 1,9 milljónir kr.

„Auk þeirra greiðslna, sem hér eru nefndar, getur nefndin falið einstökum nefndarmönnum viðbótarvinnu umfram vinnu við undirbúning funda og annað sem fylgir nefndastarfi almennt, svo sem fyrir samantektir og úrlausn afmarkaðra verkefna. Fyrir þá vinnu eru greiddar 5 einingar (8.370 kr.) á hverja vinnustund,“ segir í svari forseta Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert