Óánægja kemur ekki á óvart

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir það ekki koma á óvart að einhverjir verði ósáttir við þá niðurstöðu fulltrúa flokksins í fjárlaganefnd að það þjóni hagsmunum þjóðarinnar best að ljúka Icesave-málinu á þeim grunni sem nú liggur fyrir. Einstakir sjálfstæðismenn hafa í dag lýst óánægju sinni með afstöðu flokksins.

„Í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hefur verið breið samstaða um þetta,“ segir Bjarni. Hann segir það ekki með nokkrum fögnuði gert að menn taki þátt í því að leggja skuldbindingar á þjóðina.

„Það kemur mér því ekki á óvart að einhverjir verði ósáttir við þessa niðurstöðu. En þegar menn hafa ígrundað málið jafn gaumgæfilega og við höfum gert og sannfærst um að það þjóni hagsmunum þjóðarinnar best að ljúka þessu svona. og eftir þann gríðarlega mikla árangur sem náðst hefur með því að spyrna við fótum gegn þeim hugmyndum sem ríkisstjórnin hefur haldið á lofti, þá er ég sannfærður um að það er verið að gera rétt,“ segir hann.

„Okkar barátta í þessu máli hefur haft grundvallaráhrif á að kollvarpa fyrri áætlunum ríkisstjórnarinnar í málinu og hennar skömm er mikil og ævarandi fyrir það hvernig hún gekk fram. Það er vegna framgöngu okkar hér í þinginu sem þessi árangur hefur náðst og við erum að fylgja þeim árangri eftir,“ segir Bjarni.

Fráleitt að við séum að skipta um skoðun

Spurður hvort sjálfstæðismenn séu ekki að taka nýja stefnu í Icesave-málinu, neitar Bjarni því. „Það er mjög góð spurning og einhverjir velta því fyrir sér. Skoðum sögu málsins. Ég var þeirrar skoðunar strax á haustdögum ársins 2008 að það ætti að leita sátta um lausn þessa máls. Samningsstaða okkar í viðræðum við Breta og Hollendinga mótast af því að við teljum okkur ekki hafa lagalega skuldbindingu. Það er engin skýr lagaleg skuldbinding til að veita ríkisábyrgð fyrir lágmarkstryggingunni. Þessa stöðu hafði ríkisstjórnin gefið eftir í fyrri samningum. En eftir að þjóðin reis upp gegn þeirri niðurstöðu, þá voru viðmælendur okkar knúðir til þess að gefa eftir og þeir hafa gert það stórkostlega frá fyrri hugmyndum.

Vaxtalækkunin ein og sér er hátt í 200 milljarðar miðað við fyrri samning. Það er óumdeilanlegt að þessi samningur ber með sér að ríkin eru hvert um sig að leggja sitt af mörkum til þess að ljúka deilunni. Þess vegna finnst mér það fráleitt að halda því fram að við séum að skipta um skoðun. Við erum að styðja við samning sem við sögðum að væri hægt að ná í upphafi,“ segir Bjarni.

Hagsmunamat ræður

-En eftir stendur að ekki er skýr lagaleg skuldbinding fyrir ríkisábyrgðinni?

„Það er hagsmunamat sem ræður því hvort menn vilja láta reyna á réttarstöðu sína eða ganga að þeim skilmálum sem hér hefur samist um. Það hefur aldrei neitt annað vakað fyrir mér í þessu máli en að vinna þjóðinni gagn og standa þannig að málinu að það þjóni hagsmunum almennings best,“ segir Bjarni.

Aðspurður hvort hann hafi orðið var við óánægju innan Sjálfstæðisflokksins í dag vegna þessarar niðurstöðu þingmanna flokksins og hvort hann hafi áhyggjur af áhrifum þessa innan Sjálfstæðisflokksins segist Bjarni hafa orðið var við einhverja óánægju vegna þessarar afstöðu.

„Ég ber fulla virðingu fyrir því að sumir vilji láta reyna á réttarstöðu okkar með því að hafna þessum samningum og slíta samskiptum við Bretland og Holland. Ég hef skoðað þann valkost mjög gaumgæfilega og ég tel að þetta sé skynsamlegri leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert