Vildu láta ávíta ráðherra

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Golli

Þingmenn Framsóknarflokks hvöttu forseta Alþingis til að víta fjármálaráðherra fyrir ummæli sem hann lét falla í fyrirspurnartíma þar sem rætt var um dóm Hæstaréttar vegna aðalskipulags Flóahrepps.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, sagðist gera sér grein fyrir því, að Vinstrihreyfingin-grænt framboð væri arftaki byltingararms jafnaðarmanna þar sem menn töldu sig ekki alltaf þurfa að fylgja lýðræðislegum leikreglum eða lögum til að ná settu markmiði.

„En er það ekki áhyggjuefni þegar framkvæmdavaldið í landinu er orðið undir stjórn slíkra afla, sem láta sig lög landsins engu varða og telja jafnvel að það sé hlutverk ráðherra að fara á svig við lögin ef það hentar til að ná fram markmiðum. Og bætir svo við ásökunum um mútugreiðslur," sagði Sigmundur Davíð.

Fleiri þingmenn tóku í sama streng. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að Steingrímur hefði spurt hvort menn vildu virkilega kaupa sér skipulag. „Þetta eru einhver ósmekklegustu orð sem hér hafa fallið og er þó af nógu að taka. Þarna er hæstvirtur fjármálaráðherra að væna sveitarfélagið Flóahrepp um að hafa stundað einhverskonar mútustarfsemi," sagði Ragnheiður Elín. Krafðist hún þess að ráðherra bæði sveitarfélögin afsökunar á þessum ásökunum. 

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti þingsins, sagði að fundur þingflokksformanna yrði haldinn síðdegis og þar gætu þeir tekið þetta mál upp. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert