Friðlýsa búsvæði tjarnaklukku

Tjarnaklukka. Myndin er af vef Náttúrufræðistofnunar.
Tjarnaklukka. Myndin er af vef Náttúrufræðistofnunar.

Búsvæði tjarnaklukku á Hálsum við Djúpavog hefur verið friðlýst.  Tjarnaklukka er ein fárra tegunda vatnabjallna sem finnast á Íslandi og hefur hvergi orðið vart á landinu nema á Hálsum.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, undirritaði friðlýsinguna nýverið með samþykki sveitarstjórnar Djúpavogshrepps og landeigenda jarðarinnar Strýtu við Berufjörð.

Með friðlýsingunni varð Djúpavogshreppur fyrst íslenskra sveitarfélaga til að samþykkja friðlýsingu svæðis til verndar smádýralífi. Samhliða friðlýsingunni gerði Umhverfisstofnun samning við Djúpavogshrepp um umsjón með hinu friðlýsta svæði.

Fram kemur á vef umhverfisráðuneytisins, að af þessu tilefni hafi umhverfisráðherra hrósað sveitarstjórn Djúpavogshrepps fyrir vandaða vinnu við gerð aðalskipulags til 2020 en skipulagið geri meðal annars ráð fyrir verndun fjölmargra annarra svæða innan sveitarfélagsins vegna landslags og náttúru, þar á meðal fuglalífs.

Hið friðlýsta tjarnaklukkusvæði er yst á nesinu sem aðskilur Hamarsfjörð og Berufjörð og nær í 160 metra hæð yfir sjó. Þar er fjöldi smátjarna af ýmsu tagi sem iða af lífi.

mbl.is

Bloggað um fréttina