Slæmt fyrir Ísland ef evran hrynur

Unnur Brá Konráðsdóttir í ræðustóli Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir í ræðustóli Alþingis.

Ef evran hrapar mun það hafa slæm áhrif á efnahagslíf Íslendinga. Þetta sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður í umræðum á Alþingi um tillögu um að Ísland dragi til baka umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður. Þeir sem töluðu í umræðunum í dag voru aðallega þingmenn Sjálfstæðisflokks og voru þeir allt annað en sammála um ágæti tillögunnar. Unnur Brá, Pétur H. Blöndal, Einar K. Guðfinnsson, Árni Johnsen og Ásbjörn Óttarsson lýstu yfir stuðningi við tillöguna, en Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lýstu andstöðu við hana.

Ragnheiður sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði jafnan verið í forystu í utanríkismálum Íslendinga, en væri það ekki í þessu máli, því miður. Hún sagði að andstæðingar Evrópusambandsins færðu m.a. þau rök gegn aðild að evran ætti í svo miklum vandræðum og væri að hrynja. Hún sagðist sjálf ekki vera að gera að því skóna að evran myndi hrynja, en ef það gerðist myndi það hafa slæmar afleiðingar fyrir útflutningsfyrirtæki Íslendinga.

Árni Johnsen sagði að Evrópusambandið væri búið að hamast á Íslendingum og hann lýsti furðu sinni á því að Ragnheiður og Þorgerður Katrín væru að gæla við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þangað ættu Íslendingar ekkert erindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert