Olían streymir úr Goðafossi

Goðafoss á strandstað. Myndin er af vef norsku strangæslunnar.
Goðafoss á strandstað. Myndin er af vef norsku strangæslunnar.

Goðafoss, gámaskip Eimskips, sem strandaði á áttunda tímanum í gærkvöldi í innsiglingunni í Fredrikstad í Noregi, lekur nú olíu beggja vegna miðskips.

Olían hefur lekið í 2,5 sjómílur vest-suð-vestur af skipinu og eini þjóðgarður Noregs í hafi er í hættu, samkvæmt frétt í norska Aftenposten í dag.

Nú er verið að reyna að girða skipið af, þannig að olían haldist á afgirtu svæði. Samkvæmt upplýsingum á vef norsku strandgæslunnar eru aðstæður á strandstað með ágætum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni eru slíkar olíuvarnargirðingar blásnar upp og þær fljóta síðan á sjónum. Í girðingunni er efni sem dregur olíuna að sér. 

Skipið strandaði á Kvernskjær, sem er á milli Asmaløy og Kirkøy rétt fyrir utan Hvaler. Olíufarmurinn er talinn vera 800 tonn af þungolíu, sem er óhreinsuð jarðolía. Einnig 493 gámar um borð.

Lekinn er í tveimur tönkum miðskips, sem hvor um sig tekur 250 tonn.

Norska siglingamálastofnunin er á staðnum til að meta aðstæður.

Strandstaðurinn er ekki langt frá landamærum Noregs og Svíþjóðar. Því er sænska strandgæslan í viðbragðsstöðu, leki olían inn á yfirráðasvæði þeirra.

Skipið, sem er 165 metra langt og og 14664 tonna gámaflutningaskip, hafði nýlega sagt skilið við hafnsögubát þegar það strandaði. Engan hefur sakað um borð.

Kort af siglingasvæðinu þar sem Goðafoss strandaði.
Kort af siglingasvæðinu þar sem Goðafoss strandaði.
mbl.is