Fréttaskýring: Skilja á milli sölu og framleiðslu á marijúna

Hluti af maríjúana, sem fannst í Kópavogi í síðustu viku.
Hluti af maríjúana, sem fannst í Kópavogi í síðustu viku.

Fíkniefnasalar hafa í auknum mæli skilið á milli framleiðslu á marijúana og sölu, því þeir meta það svo að með því móti verði sölunetið fyrir minna tjóni ef og þegar lögreglan stöðvar framleiðsluna, sögn Karls Steinars Valssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „Menn reyna að dreifa áhættunni,“ segir hann.

Fyrr í þessum mánuði lagði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hald á alls 8 kíló af marijúana um leið og hún stöðvaði umfangsmikla ræktun í Garðabæ. Þar uxu og döfnuðu um 170 plöntur í geymsluhúsnæði sem er sambyggt íbúðarhúsnæði ræktandans sem er fjölskyldumaður. Pakkningarnar sem efnið var í vógu um hálft kíló og segir Karl Steinar að maðurinn hafi líklega ekki dreift efninu til neytenda heldur fremur afhent efnið mönnum sem hafa sölunet á bak við sig. „Eigum við ekki að segja að það hafi verið heildsölubragur yfir þessu hjá manninum,“ segir hann. Um þetta atriði sé málið þó ekki fullrannsakað.

Velti tugum milljóna

Samkvæmt verðkönnun meðal þeirra sem leita sér hjálpar hjá SÁÁ kostar hvert gramm af marijúana rúmlega 3.000 krónur. Efnið kostar mun minna í heildsölu en lögregla telur engu að síður ljóst að ræktunin í Garðabæ hafi skilað veltu upp á tugi milljóna. Uppskeran sem lögregla haldlagði hafi einungis verið ein af mörgum, um það beri ummerki á vettvangi glöggt vitni.

Lögregla beitti sér mjög gegn marijúanaræktun á árinu 2008 og 2009 og Karl Steinar segir að svo virðist sem viðbrögð ræktenda hafi verið tvíþætt. Annars vegar hafi þeir dregið úr umfanginu og ræktað um 100-200 plöntur á hverjum stað. „Þú þarft minna húsnæði og það eru kannski minni líkur á að ræktunin veki athygli,“ segir hann. Hins vegar hafi þeir brugðist við aðgerðum lögreglu með því að skilja á milli ræktunar og sölu. Náist ræktandinn megi reyna að finna annan í hans stað en hefði hann einnig verið sölumaður væri sölunetið í hættu.

Sölunet fyrir marijúana eru með ýmsum hætti. Karl Steinar segir að sölumenn sækist eftir fólki sem hafi tengsl inn í skóla og fari á veitingastaði þar sem efnin eru seld. Símanúmer hjá sölumönnum gangi manna á milli og efnin sömuleiðis.

Þótt fíkniefnadeild lögreglunnar hafi ekki fengið vitneskju um ofbeldi tengt fíkniefnasölu segir Karl Steinar ljóst að þessi heimur sé harkalegur. Efnin séu ekki gefins, nema þá þegar menn eru að kynna þau væntanlegum neytendum. Þá fái fólk e.t.v. að prófa ókeypis en þurfi svo að borga.

Meira ræktað á meginlandinu

Ræktun á marijúana virðist hafa aukist mjög árið 2008 og um leið varð algengara að gróðurhúsalömpum væri stolið. Karl Steinar segir að í Noregi og fleiri Evrópuríkjum hafi ræktun á marijúana aukist til muna. „Menn hafa náð betri tökum á plöntunum og þessu ræktunarumhverfi svo þeir ná sterkara efni út úr þessum plöntum,“ segir Karl Steinar. „Það eru enn mikil umsvif í ræktuninni, þrátt fyrir allt. Þessu efni er haldið að ungu fólki, það er alveg greinlegt og eftirspurnin er mikil. Þetta er mikið áhyggjuefni.“

Auðvelt að nálgast gras

Brynhildur Jensdóttir, ráðgjafi hjá Vímulausri æsku, segir mikið af foreldrum hringja vegna marijúana-reykinga barna sinna. Þessum hringingum hafi fjölgað mjög undanfarið. Hún segir að svo virðist sem unglingar eigi mjög auðvelt með að nálgast marijúana, eða gras, eins og það er einnig kallað. Þeir fái upplýsingar um sölumenn m.a. með sms-sendingunum, á Facebook, á msn-spjallrásinni o.s.frv.

Margir séu haldnir þeirri ranghugmynd að marijúana-reykingar séu ekki ýkja skaðlegar, sem sé alls ekki raunin. Marijúana sé skaðlegt fíkniefni sem m.a. geti stuðlað að geðsjúkdómum, minnistapi og skertri andlegri getu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert