Vill breyta 26. greininni

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Golli

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist telja nauðsynlegt að ræða breytingar á 26. gr. stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta. Fleiri þingmenn tóku undir þetta sjónarmið í umræðum á Alþingi.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðu utan dagskrár á Alþingi í dag um ákvörðun forseta Íslands að synja lögum um Icesave staðfestingar. Bjarni sagði að viðbrögð stjórnvalda bentu til þess að ríkisstjórnin hefði ekki verið undirbúin undir þessa ákvörðun forsetans. Svo hefði verið í fleiri málum. Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn treysti þjóðinni til að taka upplýsta ákvörðun í þessu máli.

Bjarni sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði alla tíð verið tilbúinn til að ræða breytingar á 26. gr. stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta Íslands. Í vinnu stjórnarskrárnefndar á árunum 2006-2007 hefði hefðu fulltrúar flokksins hvatti til þess að þessari grein yrði breytt eða hún afnumin, en þá hefðu fulltrúar annarra flokka lagst gegn því. Hann spurði Steingrím hvort hann vildi breyta þessari grein nú.

Steingrímur sagðist vera tilbúinn til að ræða breytingar á þessari grein. „26. gr. er hér undir og ég get tekið undir það að við hljótum að þurfa að velta ýmsu fyrir okkur í þessu sambandi, þar á meðal t.d. því hvort að það eigi að skipta máli hversu umdeild mál eru þegar þau fara í gegnum þingið ef synjunin er um að þau öðlist ekki staðfestingu; hvort það skipti máli hvort þar er minnsti mögulegi meirihluti eða hvort þar er t.d. aukinn meirihluti. Persónulega er ég líka þeirrar skoðunar að við eigum að taka til skoðunar hvort að þessum rétti sé ekki betur fyrir komið með skilgreindum hætti og þá um þau mál sem menn eru sammála um að séu til þess fallin að fara í þjóðaratkvæði hjá þjóðinni sjálfri. Sömuleiðis kemur til greina það fyrirkomulag sem t.d. er í stjórnarskrá Dana, að skilgreindur minnihluti þingmanna getur vísað máli í þjóðaratkvæði,“ sagði Steingrímur.

Bjarni sagði það mikil tíðindi að fulltrúar allra flokka á þingi, nema Framsóknarflokksins, hefðu lýst yfir stuðningi við hugmyndir um að breyta 26. greininni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert