Gagnrýna forgangsröðum ríkisstjórnar

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á fundi sínum í gær ályktun þar sem hörmuð er sú forgangsröðun sem birtist í ákvörðunum ríkisstjórnar um niðurskurð hjá heilbrigðisstofnunum.

„Sú áætlun að fækka um sex starfsmenn hjá Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja á næstu mánuðum er fráleit og kemur til með að skaða starfsemi þessarar mikilvægu stofnunnar og hafa ýmiskonar alvarlegar afleiðingar í för með sér," segir í ályktuninni.

Þá segir, að niðurskurður Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja um 100 milljónir á þremur árum sé í engum takti við rekstrarlegar þarfir stofnunarinnar.

„Það er fráleitt að verja allt að tvöþúsund milljónum í „að kíkja í pakkann hjá ESB," á meðan aldraðir fá ekki þjónustu vegna niðurskurðar. Það stenst enga skoðun að verja 500 milljónum í stjórnlagaþing á meðan veikt fólk þarf frá að hverfa. Bæjarstjórn hvetur ríkisstjórn Íslands til að endurskoða forgangsröðun sína með hagsmuni aldraðra, sjúkra og annarra í huga," segir í ályktuninni.

Ályktunin var samþykkt með fjórum atvkæðum sjálfstæðismanna en þrír bæjarfulltrúar  V-lista sátu hjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert