Afstaða femínista kom ekki á óvart

Kornabarn.
Kornabarn. Kristinn Ingvarsson

„Það eiga eftir að koma fleiri umsagnir. Ég veit um nokkra aðila sem eru að vinna að umsögnum um málið og eru jákvæðir gagnvart málinu,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um framkomnar umsagnir umsagnaraðila við þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun.

„Þær athugasemdir sem komnar eru fram koma ekki á óvart. Það var til að mynda vitað að femínistar væru andvígir staðgöngumæðrun og kom skýrt fram á málþingi um málið á síðasta ári,“ Ragnheiður Elín sem sjálf er fylgjandi því að staðgöngumæðrun verði leyfð á Íslandi.

„Ég tel að það gæti ákveðins misskilnings Í sumum þessara umsagna. Þá á ég við athugasemdir um atriði sem allir geta verið sammála um að vera á móti. Og þess vegna er lagt til í þessari tillögu að staðgöngumæðrun verði heimiluð með ströngum skilyrðum og einungis af velgjörð. Með því móti er verið að girða fyrir atriði eins og barnasölu sem einhverjir umsagnaraðilar nefndu. auðvitað eru allir mótfallnir því.

Mörg siðferðilegu álitamálanna sem nefnd eru í umsögnunum eru ekki bundin við staðgöngumæðrun. Rökin gegn eru í raun léttvæg þegar haft er í huga að við heimilum nú þegar öll hin úrræðin, tæknifrjóvgun para, einhleypra, samkynhneigðra o.s.frv. Við leyfum gjafaegg, við leyfum gjafasæði. Og þetta er í stöðugri þróun, sl. sumar var það heimilað hérlendis með lögum að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun.“

Nánast án athugasemda í gegnum þingið

„Það er mjög athyglisvert að skoða að það fór nánast athugasemdarlaust í gegnum þingið. Við leyfum ættleiðingar barna hvort sem um er að ræða börn af íslenskum eða erlendum uppruna, við leyfum ættleiðngar samkynhneigðra. Siðferðilegu álitamálunum hvað varðar uppruna einstaklingsins, sjálfsmynd og tengsl við foreldra hefur því að mínu mati að miklu leyti verið svarað.

Svo hefur verið gagnrýnt að flýtirinn sé of mikill, að dagsetningin sem lögð er til í frumvarpinu, þ.e.a.s. 31. mars, sé of nærri okkur í tíma. Sú dagsetning er ekkert heilög, heldur frekar sett fram til að halda mönnum við efnið. Ég tel okkur hafa allar upplýsingar um þetta mál og að það sé komið að því að taka ákvörðun. Ef dagsetningin er hins vegar að þvælast fyrir fólki þá breytum við einfaldlega þeirri dagsetningu.

Mér finnst skipta miklu máli í þessu samhengi að þetta er úrræði sem er til staðar. Menn eru að notfæra sér þetta, bæði hérlendis og erlendis. Þá finnst mér eðlilegra að við setjum lagaramma utan um þetta sjálf til að koma í veg fyrir ýmis atriði sem nefnd eru og menn hafa áhyggjur af, svo sem misnotkun á neyð kvenna,“ segir Ragnheiður Elín.

Eins og fram hefur komið leggst Femínistafélag Íslands gegn tillögunni, líkt og fleiri aðilar.

Nálgast má upptökur af umræðum um málið á Alþingi hér

Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir mbl.is
Skiptar skoðanir eru um staðgöngumæðrun.
Skiptar skoðanir eru um staðgöngumæðrun. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert