Styðja yfirmanninn hjá Isavia

Merki Isavia
Merki Isavia

Undirskriftalisti hefur verið látinn ganga í Isavia, þar sem lýst er yfir stuðningi við manninn, sem áreitti samstarfskonu sína, en dómur féll í málinu í héraðsdómi Reykjaness fyrir tæpum þremur vikum.  Þar var fyrirtækið dæmt til greiðslu miskabóta vegna kynferðislegrar áreitni mannsins gegn konunni. Hann var yfirmaður hennar.

Haldnir hafa verið  fundir með starfsfólki Isavia, þar sem rætt hefur verið um málið og dóminn.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að eðlilegt sé að slíkir fundir séu haldnir. „Þegar mál kemur upp í fjölmiðlum, sem snertir fyrirtækið og er jafn hávært og þetta mál, þá þótti stjórnendum fyrirtækisins nauðsynlegt að ræða við sitt fólk,“ sagði Hjördís í samtali við mbl.is

Undirskriftalistar hafa verið látnir ganga meðal starfsmanna fyrirtækisins, þar sem stuðningi er lýst við Stefán Thordarsen, manninn sem áreitti konuna, og fullyrt að fjölmiðlaumfjöllun um hann hafi verið ómakleg.

Hjördís staðfestir þetta. Hún segir að listinn sé hins vegar ekki á vegum fyrirtækisins og gangi ekki út um allt fyrirtækið.  „Þeir sem starfa á fjölmiðlum kynna sér ekki alltaf málin áður en farið er af stað að skrifa eða segja fréttir og því er ekki alltaf sagt rétt frá, það er miður. Það er væntanlega ástæða þess að einhver hefur farið af stað með undirskriftarlistann.“

Að sögn Hjördísar hefur Isavia ekki tekið ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað.   
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert