Álfhólsskóli fjölmennasti grunnskólinn

Nemendur og starfsfólk Digranesskóla gengu fylktu liði til Hjallaskóla þegar …
Nemendur og starfsfólk Digranesskóla gengu fylktu liði til Hjallaskóla þegar skólarnir sameinuðust á síðasta ári.

Fjölmennasti grunnskóli landsins er Álfhólsskóli í Kópavogi sem varð til með sameiningu Digranesskóla og Hjallaskóla. Þar eru nú 732 nemendur.

Aðrir fjölmennir skólar eru Lágafellsskóli (697), Árbæjarskóli (664), Rimaskóli (663) og Varmárskóli (661). Fámennasti grunnskólinn er Finnbogastaðaskóli á Ströndum þar sem 4 nemendur stunda nám og er það eini grunnskólinn með færri en 10 nemendur. 

Fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar, að alls starfa 172 grunnskólar á landinu, þremur skólum færra en í fyrra. Grunnskólum fer fækkandi vegna sameiningar og hefur fækkað um 24 skóla frá árinu 1998.

Í sérskólum, sem eru 4 talsins, stunda 136 nemendur nám. Einkaskólarnir eru 10 talsins með 759 nemendur. Ekki hafa áður verið fleiri nemendur í einkareknum grunnskólum á Íslandi frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands haustið 1997.

mbl.is