„Áhugamenn um mótorhjól“

Einar „Boom
Einar „Boom" Marteinsson. mbl.is/Golli

„Við erum flestir fjölskyldumenn sem hafa áhuga á mótorhjólum,“ segir Einar „Boom“ Marteinsson, forseti Hells Angels MC Iceland.

Spurður um það orðspor að Hells Angels tengdist afbrotum sagði Einar að það væru annarra orð, en ekki þeirra.

„Við erum löglega skráð félagasamtök á Íslandi og stefnuskráin er ósköp einföld: Við erum áhugamenn um mótorhjól.“

Mótorhjólaklúbburinn MC Iceland var tekinn inn sem fullgildur meðlimur í samtökin Hells Angels (HA) á föstudaginn var. Klúbburinn fékk þá nafnið Hells Angels MC Iceland líkt og sjá má á merkinu sem sett var upp á félagsheimili klúbbsins í Hafnarfirði.

Átta félagar íslenska klúbbsins fóru til Noregs í tilefni af formlegu viðurkenningunni fyrir inntöku í HA. Fram hefur komið að inngöngu íslenska klúbbsins í HA hafi verið stjórnað af norskum systursamtökum þeirra.

Íslendingarnir átta voru handteknir við komuna til Gardermoen-flugvallar við Osló á föstudaginn var og misstu því af samkvæminu sem norskir félagar þeirra héldu. Þeir voru í haldi á flugvellinum allt fram á sunnudagskvöld að þeir gengu sjálfviljugir um borð í flugvél sem flutti þá til Íslands.

Einar „Boom“ Marteinsson er forseti Hells Angels MC Iceland. Hann fékk viðurnefnið „Boom“ þegar hann rak skemmtistað í miðborginni sem hét „Boomkicker“. Einar var einn áttmenninganna sem fóru til Noregs og dvöldu á Gardermoen yfir helgina. Hann gaf kost á stuttu samtali við blaðamann, augliti til auglitis, og staðfesti að MC Iceland-klúbburinn hefði fengið inngöngu í Hells Angels og héti nú Hells Angels MC Iceland.

Hells Angels MC 

Hells Angels samtökin voru stofnuð í Bandaríkjunum í mars 1948. Hells Angels þýðir í raun englar víta, því „hells“ er í fleirtölu. Samtökin segja að lífið og sagan sýni að vítin séu mörg og margskonar. Liðsmenn Hells Angels bera margs konar merki til tákns um uppruna sinn, reynslu og frama innan samtakanna. Merkið 81 vísar t.d. til 8. og 1. stafs stafrófsins, H og A.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert