Bankastjórarnir mættu ekki

Bankastjórar viðskiptabankanna mættu ekki á fund viðskiptanefndar Alþingis í morgun þar sem m.a. var rætt um laun bankastjóra. Á fundinum kom fram að fulltrúi Bankasýslunnar í stjórn Arion banka greiddi atkvæði með tillögu um launahækkun bankastjóra bankans.

Nefndarmenn í viðskiptanefnd höfðu reiknað með að bankastjórar bankanna myndu mæta á fund nefndarinnar í morgun þar sem fjallað var um ársreikning bankanna. Þeir mættu hins vegar ekki en millistjórnendur í bönkunum mættu hins vegar í þeirra stað. Talsverð óánægja var með þetta í nefndinni, en boðaður hefur verið annar fundur í nefndinni á föstudaginn og þá er reiknað með að bankastjórarnir komi fyrir nefndina.

Á fundinum kom fram að fulltrúi Bankasýslunnar í stjórn Arion banka greiddi atkvæði með tillögu um launahækkun bankastjóra bankans. Hann sat hins vegar hjá þegar tillaga um launahækkun til bankastjóra Íslandsbanka var borin undir atkvæði. Fram kom á fundinum hjá fulltrúa Bankasýslunnar að hann teldi að laun bankastjóra Arion banka væru sambærileg launum bankastjóra hinna bankanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbanka er Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, með tæplega 1,1 milljón á mánuði. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion, fékk hins vegar 4,3 milljónir á mánuði í fyrra, eða samtals 30 milljónir, en hann hóf störf í júní. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, var með 2,6 milljónir á mánuði í fyrra eða 31,6 milljónir króna samtals.

mbl.is