Kynlegar tölur í Reykjavíkurborg

Fjölnir og KR takast á í körfubolta kvenna. Fleiri konur …
Fjölnir og KR takast á í körfubolta kvenna. Fleiri konur en karlar stunda körfubolta í Reykjavík. Ómar Óskarsson

Fleiri konur en karlar stunduðu körfubolta í Reykjavík árið 2009. Fleiri karlar iðkuðu hinsvegar knattspyrnu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Kynlegum tölum mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, tölfræðibæklingi sem tekin var saman í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna í dag.

Álíka margar konur og karlar eru búsett í Reykjavík, en þó örlítið fleiri konur eða 59.909 á móti 58.989 körlum. Konur eru í meirihluta þeirra borgarbúa sem stunda háskólanám og einnig eru fleiri reykvískar konur í námi á framhaldsskólastigi.

Reykvískar konur virðast vera virkari unnendur bókmennta og lista en reykvískir karlar, sé litið til þess að konur eru 67% allra handhafa bókasafnsskírteina á Borgarbókasafninu. Þær eru einnig í miklum meirihluta félaga í Sambands íslenskra myndlistarmanna, eða 75% á meðan karlar eru 25%. Listasafn Reykjavíkur á hinsvegar mun fleiri verk eftir karla en konur, alls 403 verk eftir karla en 231 eftir konur. Á sýningum Listasafns Reykjavíkur árið 2010 var kynjahlutfall listamanna sem þar áttu verk þó nokkuð jafnara, því 56,8%listamannanna voru karlar en 43,12% konur.  

Karlar eru duglegri að nýta sér aðstöðu sundlauga Reykjavíkur, en sem fyrr eru Laugardalslaug og Árbæjarlaug þar vinsælastar. Þegar kemur að hópíþróttum á vegum ÍSÍ eru karlar í meirihluta iðkenda fótbolta og handbolta, en fleiri konur en karlar spila hinsvegar körfubolta.

Frá árinu 2005 hafa 43 nauðganir verið skráðar inni á skemmtistöðum Reykjavíkurborgar. Konur eru í öllum tilfellum þolendur þeirra. Margfalt fleiri karlar en konur leita hinsvegar á slysa- og bráðadeild LHS eftir ofbeldi á skemmtistöðum.  Á síðasta ári leituðu 453 karlar á LHS vegna slíkra meiðsla en 88 konur.

Að lokum má nefna að mun fleiri karlar en konur gegna æðstu stöðum í fyrirtækjum í borginni. Þannig sitja rúmlega þrefalt fleiri karlar en konur í stjórnum fyrirtækja, einnig eru þrefalt fleiri karlmenn stjórnarformenn og tæplega fjórfalt fleiri karar en konur eru framkvæmdastjórar fyrirtækja, eða 3.696 karlar á móti 930 konum.

mbl.is