Enginn vildi taka sæti í fagráði Krossins

Gunnar Þorsteinsson, fyrrverandi forstöðumaður Krossins.
Gunnar Þorsteinsson, fyrrverandi forstöðumaður Krossins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Enginn af þeim sem stjórn Krossins leitaði til með að taka sæti í fagráði trúfélagsins, vegna þeirra ásakanna sem komið höfðu fram á hendur Gunnari Þorsteinssyni, vildi taka sæti i ráðinu. Stjórnin hefur tekið ákvörðun að leggja hugmyndir um skipan fagráðs til hliðar.

Átta konur, sem saka Gunnar um kynferðislega áreitni hafa lagt fram formlega kæru til lögreglu.

Á safnaðarfundi í Krossinum þann 8. desember s.l var ákveðið að skipa fagráð sérfræðinga vegna þeirra ásakanna sem komið höfðu fram á hendur Gunnari Þorsteinssyni. „Með þeirri skipan vildi söfnuðurinn koma málum í faglegan, sanngjarnan og heiðarlegan farveg þar sem sérfræðingar gætu farið vandlega yfir málin og reynt að komast að niðurstöðu. Jafnframt vék Gunnar Þorsteinsson sem forstöðumaður til að aukið rými gæfist til að koma þessum erfiðu málum í viðunandi farveg,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn Krossins.

„Eftir að hafa leitað ráða hjá færustu sérfræðingum varðandi ferlið var tveimur sérmenntuðum aðilum falið það hlutverk að tilnefna hæft fagfólk til setu í ráðinu. Lögð var á það áhersla að þeir sem tækju sæti í fágráðinu væru óháðir Krossinum og fagþekking þeirra og heilyndi væru yfir allan vafa hafinn.

Eftir að hafa leitað til hóps einstaklinga sem að mati sérfræðinga höfðu hæfi að bera til setu í ráðinu hefur komið í ljós að enginn hefur verið tilbúinn til að taka það verkefni að sér. Því er ljóst að ekki hefur tekist að fá hæft fólk til að taka sæti í fagráðinu.“

Stjórnin telur hugsanlegt að þeir sem leitað var til hafi ekki viljað sogast inn í þau illvígu átök sem staðið hafa um þessi mál.

„Með kæru til lögreglu hafa ásakendur tekið málin í sínar hendur og lítur stjórn Krossins eðlilega svo á að frekari vinna við að setja á fót fagráð sé ekki til neins. Það er von okkar að á þessum erfiðu málum fáist niðurstaða og sannleikurinn komi í ljós,“ segir í yfirlýsingu stjórnar Krossins.

mbl.is

Bloggað um fréttina